Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar og heldur betur til í daginn saman. Þær héldu hressar í morgunmat þar sem að þær fengu sér vel að borða af morgunkorni eða hafragraut. Eftir morgunmat var fánahylling og morgunstund með forstöðukonu á sínum stað. Á morgunstund lærðum við um það að það sé alltaf hægt að biðja til Guðs. Hann segir kannski ekki alltaf já við öllu því sem við biðjum fyrir en hann er alltaf til í að vera til staðar fyrir okkur. Svo er líka gott að ef manni t.d. líður ekki vel að geta tekið smá augnablik og beðið til Guðs ef að maður vill. Að sjálfsögðu syngjum við líka alltaf  helling af söngvum saman því að það er svo gott að byrja daginn á því að syngja.

Eftir morgunstund var komið að frjálsum tíma þar sem að brennó keppnin hélt áfram ásamt íþróttakeppnum, föndri og vinaarmböndum. En það er alltaf mikið líf og fjör í frjálsa tímanum. En síðan var komið að hádegismat en í hádegismatinn var kjúklingur og franskar sem að sjálfsögðu sló í gegn eins og allur annar matur hér í Vindáshlíð.

Í útiveru að þessu sinni fóru stelpurnar í smá ævintýraleiðangur saman sem hópur. Í þessari ævintýraferð áttu þær að leita að gúbbífisknum Gubba en komust fljótt að því að Bóbó dýrið stal honum. Stelpurnar þurftu því að labba aðeins um svæðið en Bóbó dýrið hafði skilið eftir vísbendingar á nokkrum stöðum. Þær fundu loksins Bóbó dýrið hjá Pokafossi og björguðu Gubba. Þegar að á pokafoss var komið fengu stelpurnar að heyra söguna um Pokafoss sem að slær alltaf í gegn, en ég mæli með að fá stelpurnar til að segja ykkur hana þegar að þær koma heim.

Eftir ævintýraferðina var kaffitími, að þessu sinni var boðið upp á bananabrauð og amerískar smákökur. Síðan var aftur haldið í frjálsan tíma með brennó, íþróttum og öllu tilheyrandi. Að þessu sinni var líka boðið upp á danspartý í setustofunni fyrir þær sem vildu aðeins dansa og hoppa. Í  kvöldmatinn var svo skyr og pizza brauð en svo var haldið á kvöldvöku þar sem að fleiri stelpur fengu að leika listir sínar og var heldur betur mikið fjör. Við enduðum svo daginn á því að fara í kvöldkaffi og hugleiðingu en þar var talað um það hvað það er mikilvægt að vera góð hvort við aðra.

Þegar að stúlkurnar voru komnar í náttföt og voru á leið upp í rúm komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið og var mikið hlegið og brosað. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar, það voru tvær geimverur og tveir menn úr geimverueftirlitinu sem höfðu víst týnt geimverunum sínum. Þau trölluðu aðeins en gáfu svo stelpunum ís við góðar undirtektir.

Það fóru því vel þreyttar er hrikalega glaðar stelpur á koddan hér í Hlíðinni í kvöld.

Ég minni aftur á instagram Vindáshlíðar (vindashlid) en við reynum að vera dugleg að pósta myndum og fréttum þar en einnig er alltaf hægt að nálgast  allar myndir úr flokkum hér: Myndir

Bestu kveðjur,
Elísa Sif