Í gær vöknuðu hressar og kátar stelpur eftir frábært náttfatapartý. Það var í boði að sofa aðeins lengur fyrir þær sem vildi þar sem við fórum aðeins seinna að sofa eftir náttfatapartýið, enda vel þreyttar bæði eftir dásamlegan dag og frábært partý. Þegar að stelpurnar komu í morgunmat var þeim fagnað vel því að ef að maður sefur þrjár nætur í Vindáshlíð er maður formlega orðin Hlíðarmey og voru velkomnar í hópinn og fagnað með því að bjóða þeim upp á coco puffs.

Eftir morgunmat var að sjálfsögðu fánahylling og svo morgunstund með forstöðukonu. Að þessu sinni lærðum við um það að við erum allar með okkar eigin tilfinningafötu og stundum er hún full og þá líður okkur ekki endilega mjög vel, hún á það til að flæða upp úr og þessvegna er svo gott að vera góð hvor við aðra. Eftir þessa dásamlegu stund saman að þá var  komið enn og aftur að frjálsum tíma með brennói, íþróttum og fleira.

Í hádegismatinn var svo boðið upp á kjötbollur með kartöflumús og brúnni sósu. Síðan var haldið í útiveru dagsins en í tilefni þess að Kátt í Kjós var haldið hátíðlegt í sveitinni að þá héldum við okkar eigið Kátt í Kjós með leikjum og gleði í íþróttahúsinu. Síðan mættu stelpurnar ferskar í kaffitíma þar sem boðið var upp á brownie og kanillengjur sem að sjálfsögðu sló í gegn.

Eftir kaffi var frjáls tími fram að kvöldmat. Í kvöldmat var svo blómkálssúpa og nýbakaðar brauðbollur. Síðan var haldið í kvöldvöku þar sem að seinustu fjögur herbergin voru með atriði. Á kvöldvökunni var mikið sungið, hlegið og rosalegt stuð. Að lokinni  kvöldvöku var svo kvöldkaffi og hugleiðing, að þessu sinni fengum við að heyra dásamlega sögu um það að Jesú sé alltaf með okkur og þá sérstaklega í gegnum erfiðleika. Við kannski vitum ekki að hann er með okkur en hann er þá mögulega að bera okkur í gegnum erfiðleikana.

Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínum stelpum en það er með vinsælustu tímum stelpnanna enda eru foringjarnir auðvitað æði. Stelpurnar sofnuðu svo mjög fljótt í gærkvöldi eftir viðburðarríkan og skemmtilegan dag.

Minni enn og aftur á myndirnar sem eru hér: Myndir

Bestu kveðjur úr Hlíðinni,
Elísa Sif