Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar enda veisludagur framundan svo spennan var mikil. Í morgunmat fengu stelpurnar morgunkorn og mjólk eða súrmjólk með eins og vanalega en svo var haldið út að fána og svo á morgunstund með forstöðukonu. Að þessu sinni lærðum við Faðir Vorið en ræddum líka um það hvað hver og ein setning í bæninni þýðir, svo að nú ættu stelpurnar að verð með Faðir Vorið alveg á hreinu. Við sungum líka mikið en það er alltaf mjög vinsælt að fá að syngja soldið saman.
Eftir morgunstund var svo loksins komið að keppa í úrslitum í brennómótinu. Það var Furuhlíð sem að lenti í 3.sæti, Eskihlíð í 2.sæti en svo voru það Birkihlíð sem stóðu uppi sem sigurvegarar og eru því brennómeistarar 7.flokks 2022. Brennómeistararnir fá svo að keppa við foringjana í dag.
Í hádegismatinn var plokkfiskur og rúgbrauð sem stelpurnar voru mjög hrifnar af. Eftir hádegismat fengu stelpurnar svo að velja á milli fjögura svokallaðra kirkjuhópa til að skrá sig í til að undirbúa messuna sem yrði seinna um daginn. Þær gátu valið á milli þess að fara í leiklistarhóp, sönghóp, skreytingarrhóp og bæna og undirbúningshóps. Stelpurnar skemmtu sér gríðarlega vel og var mikið stuð í öllum hópunum.
Í kaffitímanum fengu stelpurnar möndluköku og ávexti en eftir kaffið var komið að hinum sí vinsæla og skemmtilega vinagangi. En vinagangur er eitthvað sem að við gerum alltaf á veisludag hér í Vindáshlíð en þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á hárgreiðslu og nudd en svo var allskonar annað líka í boði. Um klukkan sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem framundan var.
Við byrjuðum á að fara í kirkjuna okkar vorum með okkar eigin messu og áttum notalega stund saman. Stelpurnar í leiklistarhóp sýndu leikrit sem heitir góði hirðirinn og það leikrit kenndi okku að Jesú mun aldrei yfirgefa okkur. Ef að við villumst úr hjörðinni mun hann koma og leita að okkur. Söng hópurinn leiddi svo hópinn í nokkrum vel völdnum lögum og bæna og undibúningshópur undirbjó allt það hlesta fyrir messuna. Seinastur en ekki síst að þá skreytti skreytingarhópurinn kirkjuna okkar hátt og lágt.
Að messu lokinni var komið að veislukvöldmat þar sem að boðið var upp á pizzu og djús. Það var sko heldur betur borðað vel veislumatnu. Næst tók veislukvöldvakan við sem er mjög oft hápunktur vikunnar hjá stelpunum en þá stíga foringjarnir á svið og eru með leikrit og var mikið hlegið. Í hugleiðingunni fengu svo stúlkurnar íspinna og lærðu um þakklæti og hvað það er sem við getum þakkað fyrir á hverjum degi.
Það voru því mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðarríkan dag. Á eftir fer rútan frá Vindáshlíð kl 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 15:00. Þau ykkar sem ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð verðið því að sækja þær ekki seinna en 14:00. Endinlega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig á símatíma milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044.
Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur myndirnar úr flokknum á eftirfarrandi slóð: Myndir
Við í Vindáshlíð erum alveg rosalega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum, þeirra verður sko saknað og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni.
Sjáumst á Holtavegi rétt fyrir 15:00 🙂
Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona