Þá er fyrsti dagur að kvöldi komin og eftir að við komum hingað í Hlíðina fögru þá voru stelpunum raðað í herbergi og komu sér vel fyrir. Það er vel hægt að segja að mörg herbergin eru svo vel skreytt hjá stelpunum með ljósum, blöðrum og öðru skrauti. Hádegismatur var síðan borin fram og fengum við ljúffengan grjónagraut og lifrapylsu. Síðan eftir matinn hófst dagskráin með Amazing race ratleik með hinum ýmsu þrautum sem stelpurnar þurftu að leysa. Eftir dásemdar köku í kaffitímanum þá hófst brennókeppnin, sem er mikil hefð hér í Vindáshlíð þar sem stelpurnar keppa sín á milli milli herbergja. Mikill keppnisandi er í þessum skemmtilega og fjölmenna hóp.

Í kvöldmatinn var síðan fiskur í raspi ásamt frönskum, sósu og salati – virkilega gott. Eftir kvöldmatinn var síðan frjálstími til klukkan 19.30 en þá hófst kvöldvakan en það eru Gljúfrahlíð, Furuhlíð og Reynihlíð sem sáu um að skemmta í kvöld. Virkilega gaman að sjá þessar hæfileikaríku stelpur ná að setja saman atriði á svona stuttum tíma.

Dagur 2

Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar í dásamlegu veðri, sólin lét svo sjá sig upp úr hádegi. Eftir hádegismatinn (kjúklingur og franskar) þá fórum við í skemmtilega göngu upp að Brúðarslæðu sem er foss hér í nágrenninu. Þar fengu stelpurnar að sulla og leika sér. Þegar upp í Hlíð var komið biðum við með fötur fullar af vatni, vatnsbyssur og hófum smá vatnsstríð. Veðrið var yndislegt sól og 15 stiga hiti.

Í kvöldmatinn fengum við skyr og ný bakaðar brauðbollur. Kvöldvökurnar voru á sínum stað og eru atriðin enn að koma á óvart, leikir, söngur og gleði. Eftir hlátur, söng og skemmtun þá fengum við okkur smá kvöldkaffi og kíktum í smá hugleiðingu inn á setustofu. Í þessum flokki erum við að taka hugleiðingar um samveru, kærleika, vináttu og fyrirgefninguna allt sem við getum tekið með okkur út í lífið. Eftir samveru í setustofu fengu stelpurnar að tannbursta sig út í læk og áttu síðan að fara beint í háttinn því foringjar myndu koma mjög fljótlega inn á herbergin eða ekki því þær komu hlaupandi um gangana og sungu „hæ hó jibbí jeij og jibbí jeij það er komið náttfatapartý“ Þá hófst mikið partý með söng og dansi. Upp úr miðnætti var svo komin ró og allar sofnaðar, eftir svona gleði var sofið aðeins lengur og fá stelpurnar mikið hrós fyrir hvað þær sýndu herbergisfélögum sínum sem vildu sofa lengur mikla virðingu.

Bestu kveðjur frá okkur í 8.flokki 😊