Eftir góðan nætursvefn vöknuðu stelpurnar við létt bank á hurðina og inn í hvert herbergi klukkan 9.00 komu aðstoðarforingjar og forstöðukona til þess að bjóða góðan daginn. Það var ekki að sjá þegar þær voru að vakna (sumar fyrr en aðrar) að hér væru 82 stelpur í flokknum því þær voru eins og hljóðlátar mýs að læðast um húsið og virðingin fyrir því að aðrar vildu sofa aðeins lengur var svo mikil. Síðan kom morgunmatur og svo fánahylling eftir það komu allar stelpurnar niður í sal þar sem við ræddum um samveruna, kærleikann, hjálpsemina og vináttuna. Það var svo gaman að hlusta á þær taka þátt í umræðum um þessi hugtök.

Eftir hádegismatinn (lasagna) þar sem vel var borðað var haldið af stað í göngutúr. Fyrst var hlíðarhlaupið tekið niður að hliði sem er hluti af íþróttakeppninni. Síðan var haldið af stað lengra í göngutúr niður að rétt og farið í leiki. Þreyttar stelpur komu síðan til baka í nýbakaða köku og bananabrauð. Það var ekkert hægt að stoppa og hvíla sig enda var haldið áfram í brennókeppninni og spennan magnast þar. Stelpurnar eru virkilega duglegar að fara og hvetja og hafa meira segja búið til hvatningarspjöld. Kvöldmaturinn var frábær og mjög góður, tortillapönnukökur með hakki og grænmeti. Eftir kvöldmatinn var komið að næstu 3 herbergjum að vera með kvöldvökuskemmtun og ómaði hláturinn um allt hús og gleðin leyndi sér ekki. Eftir kvöldvökuna voru margar orðnar þreyttar enda langur og skemmtilegur dagur að kveldi kominn. Þegar kvöldkaffið og hugleiðing var lokið fengu stelpurnar að fara út í læk og tannbursta það er ákveðið sport að fá að gera það. Þá var komið að kvöldstund inn á herbergi og var komin ró klukkan 23.30

 

Vindáshlíð kveður í bili þar til næst 😊