Stelpurnar vöknuðu við tónlist og dans og voru sannarlega tilbúnar í daginn. Þegar þær komu inn í matsalinn í morgunmat var búið að skreyta salinn í allskonar myndum af Disney persónum og fánaskreytingar um öll loft. Þær vissu ekkert hvað beið þeirra þennan dag því það var búið að undirbúa daginn með Disney þema. Allskonar tónlist úr teiknimyndum, foringjar dönsuðu í hádeginu meðan stelpurnar fengu kjúklingalæri og franskar. Eftir matinn var síðan haldið af stað í göngu dagsins sem var ganga að Pokafossi og þar var farið í flækjuleik, berjatínslu og störuleik. Mikið fjör hjá stelpunum og mikið gaman. Eftir útiveru þá var komið til baka í dýrindis köku 😊

Innanhúskeppnin heldur áfram þar sem stelpurnar keppast um að vera með snyrtilegasta herbergið. Brennókeppnin er á sínum stað og er að koma að 8 liða(herbergja) úrslitum. Spennan magnast svo sannarlega. Íþróttakeppnin er á sínum stað og var keppni í að standa á höndum og hlaup í kringum húsið í dag.

Í kvöldmatinn var blómkálssúpa ásamt pizza brauði. Eftir kvöldmatinn áttu síðan allar stúlkur að gera sig klára fyrir kvöldvöku sem var ekki með hefðbundnu sniði að þessu sinni en það voru ekki herbergi sem sá um skemmtun kvöldsins því það var bíó kvöld. Allar stelpur fengu bíómiða en hann kostaði 1 hrós til foringjans sem sá um söluna. Þvílíku hrós sem hún fékk það var alveg frábært. Myndin sem var sýnd var Disneymyndin Guffagrín.

Eftir bíó fengum við smá hressingu áður en haldið var inn í setustofu í hugleiðingu. Síðan eftir hugleiðingu fengu stelpurnar að fara út í læk og bursta tennur og áttu síðan að vera tilbúnar inn á herbergjum. Þegar allar voru komnar inn á herbergi byrjaði söngur, hopp og skopp um alla ganga en það var komið að náttfatapartýinu. Það var svo mikið stuð þar sem skoppað var inn í matsal þar sem var dansað, sungið og haft gaman.

Eftir gott náttfatapartý var síðan haldið í svefn, allar komnar í ró klukkan 00.30.

Þangað til næst sendum við bestu kveðjur 😊