Hér hefur rignt nánast stöðugt síðan við komum í gærmorgun, bara mismikil rigning hverju sinni, en það hefur ekki áhrif á gleði og gæðastundir sem að við eigum hérna saman.
Þessi hópur er ótrúlega flottur og við erum búin að eiga mjög góðan dag það sem af er degi og allar stelpurnar ótrúlega glaðar og kátar.
Í gær var kvöldvakan í íþróttahúsinu þar sem við fórum í leiki og höfðum gaman. Eftir það var kvöldkaffi og hugleiðing í setustofunni. Þegar formlegri dagskrá var lokið fengu stelpurnar smá tíma til að bursta tennur og fara í náttföt en svo tók við ”leitin að bænakonunni”. Það virkaði þannig að hvert herbergi fékk vísbendingar um sína bænakonu og svo komu þær og spurðu foringjana og reyndu að finna út hver passaði við þeirra vísbendingar. Þetta tók smá tíma en öll herbergin fundu sína bænakonu að lokum, við mikinn fögnuð.
Það var svo komin ró í húsið svona um miðnætti og það gekk ótrúlega vel hjá flestum þeirra að fara að sofa.
Í dag vissu þær ekki alveg hvort þær ættu að fara fram úr eða ekki, þar sem gengið var á milli herbergja og öllum boðin ”góða nótt” klukkan 9 í morgun. Hér var svo allt í rugli þegar þær komu fram úr, myndirnar á veggjunum á hvolfi, foringjarnir voru í nærfötunum utan yfir fötin sín, sum húsgögn snéru á hvolfi, og eftir morgunmat var fánahylling þar sem við tókum niður fánann… INNI… því það var svo mikil rigning úti.
Þegar þær voru svo almennilega vaknaðar föttuðu þær að það er bara algjör rugldagur í dag. Dagskráin er í rugli, foringjarnir rugla bara og svo er veðrið úti notlega alveg í takti við ”algjört rugl” miðað við að eiga að vera fallegt sumarveður 😊
En við höfum átt góðan dag saman. Eftir hádegismat, sem var hið frábæra Vindáshlíðar-lasagne, var haldin ”Vindáshlíð got talent” keppni. Þær sem vildu fengu að taka þátt og það var mikið að gera í skráningunni. Í ljós komu svo ótrúlegir hæfileikar á öllum sviðum og greinilegt að við erum með afskaplega hæfileikaríkar stelpur hérna hjá okkur.
Við fengum svo fínasta Vindáshlíðar heima-bakaðan kaffitíma og núna eru allir frjálsum tíma t.d. bara í setustofunni að spjalla, gera vinabönd og hafa það kósý saman. Brennókeppnin er í fullum gangi í íþróttahúsinu og íþróttaforinginn er með einhverja skemmtilega inni-íþróttakeppni.
Við erum að reyna að setja myndir á netið, en kerfið hefur aðeins verið að stríða okkur. Við vonumst til að þetta lagist fljótlega og fyrstu myndir birtist fyrir lok dags.
Bestu kveðjur til allra.