Þegar stelpurnar vöknuðu í morgun tók á móti þeim bæði Sól og Jól! Það eru nefnilega komin jól í þessum ævintýraflokki og jólatréið stóð í setustofunni, jólaljós í matsalnum og jólatónlistin ómaði um húsið. …og sólin brosti sínu breiðasta til okkar og sendi okkur nokkra geisla áður en hún hvarf bak við skýin. Dagurinn er þó búin að vera alveg rigningarlaus fram að þessu og við erum mjög þakklátar fyrir það.

Í gær var bíókvöld hjá okkur. Því miður þá var bíómyndin ekki áhugaverð fyrir margar, svo þegar hópurinn var farin að leysast upp breyttum við dagskránni og skruppum í íþróttahúsið með öllum stelpunum og fórum í skotbolta. Það þótti mjög skemmtilegt. Svo var hefðbundið kvöldkaffi og hugleiðing þar sem við heyrðum söguna úr ”við Guð erum vinir” þar sem er fjallað um þakkarkörfuna. Þær voru allar mjög duglegar að hlusta og fannst sagan áhugaverð.

Morgunmaturinn í dag var hefðbundin og fánahylling og biblíulestur tóku svo við. Í dag lærðu stelpurnar um ”bók bókanna”, Biblíuna, og lærðu aðeins hvernig maður flettir upp á ákveðnum stöðum. Þær voru flestar mjög áhugasamar og duglegar að taka þátt. Eftir það tók sívinsæla brennókeppnin við, ásamt stigahlaupi (íþróttaforinginn stóð fyrir því) og kósý í setustofunni. Margar fóru líka út, enda höfum við lítið verið úti fram að þessu.
Í hádegismat var grjónagrautur sem er alltaf vinsæll, ásamt lifrarpylsu.
Eftir hádegi var leikur á svæðinu okkar hérna úti sem flestum fannst mjög skemmtilegur.
Við erum ennþá í smá vandræðum með myndasíðuna okkar, þar sem myndirnar vilja ekki hlaðast inn. Við erum að reyna að vinna í málinu og vonandi lagast þetta fyrr en seinna.
Bestu sólar – jólakveðjur frá okkur öllum.

Jóhanna forstöðukona.