Það er allt fínt að frétta af okkur hér í Hlíðinni fríðu. Þessi hópur Hlíðarmeyja sem er hjá okkur er algjörlega til fyrirmyndar og þær eru ótrúlega duglegar og flottar. Ég tala um þær allar sem Hlíðarmeyjar í dag, því að reglan er sú að þegar stúlka hefur dvalið 3 nætur samfellt í dvalarflokki þá kallast hún Hlíðarmey. Við uppfylltum það einmitt í morgun, svo nú eru þær sem ekki hafa komið áður í dvalarflokk orðnar Hlíðarmeyjar og fá að bera þann titil með stolti 😊
Við vorum með enn eina óhefðbundna kvöldvökuna í gær eftir kvöldmatinn. Þá var mjög vinsæl ”Vindáshlíð Top model” keppni. Herbergin fá það verkefni að búa til ”top model” sem virkar þannig að hvert herbergi velur eina stelpu sem þær klæða svo og skreyta með  svörtum plastpokum, böndum, blómum og öðru verðlausu efni. Þeim finnst þetta yfirleitt mjög skemmtilegt og vanda sig mikið við að búa til sitt Top model. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og hugleiðing og svo gátum við leyft þeim, í fyrsta skiptið, að fara út í læk að tannbursta sig. Það vakti mikla gleði og margar stelpur drifu sig út með tannburstana og tannkremið sitt.
Þær voru svo hvattar til að vera ótrúlega fljótar að græja sig fyrir bænakonurnar og þá var hugmynd um að bænakonur fengju að vera aðeins lengur inni hjá þeim í kvöld. Þær voru svo ótrúlega fljótar, að 5 mínútum fyrir áætlaðan tíma voru nánast allar stelpurnar tilbúnar inni í herbergjum. Þær urðu því mjög hissa þegar að foringjarnir komu hlaupandi með látum og háværri tónlist og skelltu í eitt gott náttfatapartý!
Það var mikið dansað, mikið fjör og mikið gaman og þó sumar hafi verið orðnar örlítið þreyttar, þá voru flestar mjög til í þetta og hinar fengu bara að vera á rólegri stað og fylgjast með úr fjarlægð. Náttfatapartýinu lauk svo um hálf-tólf leytið og það var komin nokkuð góð ró í húsið um miðnætti.
Við ákváðum samt að leyfa öllum að sofa aðeins lengur í dag, svo við vöktum ekki fyrr en klukkan 10 í morgun. Það var nánast alveg þögn í húsinu fram að því og líklega mjög kærkomin auka klukkutími í svefn fyrir margar.

Dagurinn í dag er búin að vera mjög góður fram að þessu. Veðrið er eitthvað að ákveða sig hvort það ætli að rigna eða ekki, en við höfum ekki látið það trufla okkur mikið.
Morguninn var hefðbundin, morgunmatur, fánahylling, biblíulestur og frjáls tími eftir það í Brennókeppni, íþróttakeppni og kósý. Stelpurnar virðast nýta tímann mjög vel og yfirleitt er setustofan full af stelpum í vinabandagerð, spilum og spjalli.

Nú er sigið á seinni hlutann hjá okkur og líklega koma síðustu fréttirnar inn seinnipartinn á morgun.  Einnig er vitað að nokkrar stelpur þurfa að kveðja okkur á morgun/annað kvöld. Ég vil gjarnan heyra frá foreldrum í símatíma á morgun (milli 11 og 12) til að vita klukkan hvað foreldrar hyggjast koma, svo við getum látið börnin vita og skipulagt. (ef fólk hefur tök á) annars er í lagi að reyna að hringja utan símatíma en ekki víst að hægt verði að svara símanum þá.
Myndirnar eru að hlaðast inn og ættu að vera að koma í dag og kvöld. Endilega fylgist með.
Bestu kveðjur frá öllum Hlíðarmeyjunum hér.

Jóhanna K. Steinsdóttir.