Í dag lögðu af stað 57 eldhressar stelpur upp í Vindáshlíð í Stubbaflokk 2022. Spenningurinn var mikill enda voru lang flestar að koma í Vindáshlíð í fyrsta skiptið. Við byrjuðum á því að fara allar saman út í íþróttahús þar sem að var byrjað á því að fara yfir reglurnar hér í Vindáshlíð en svo var stelpunum raðað niður í herbergi; að sjálfsögðu fengu allar þær vinkonur sem komu saman að vera samana í herbergi. Herbergin fengu smá tíma til þess að kynnast en ásamt því kynntust þær líka bænakonunni sinni, en hvert og eitt herbergi fær sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir herberginu í gegnum flokkinn.
Þegar að stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir í herbergjunum sínum var haldið í kaffitíma, að þessu sinni var boðið upp á bananabrauð og vanilluköku sem að sjálfsögðu sló í gegn. Þegar að kaffitíminn var búinn var farið í ratleik um svæðið þar sem stelpurnar fengu að kynnast Vindáshlíð betur og leysa hinar ýmsu þrautir saman sem herbergi.
Í kvöldmatin var svo boðið upp á grjónagraut með slátri en að loknum kvöldmat var frjáls tími þar sem allskonar var í boði eins og til dæmis að fara í föndur, gera vinaarmbönd, taka þátt í íþróttakeppnum eða fara í brennó. Stelpurnar fengu svo appelsínur og epli í kvöldkaffi áður en haldið var á hugleiðingu. En á hugleiðingu sungum við saman falleg lög og heyrðum sögu um það að Jesú er alltaf með okkur, í gegnum erfiðleika, gleði og bara allt saman.
Þegar að stelpurnar héldu að hugleiðingin væri að vera búin komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið og var mikið hlegið og brosað. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar, það var ein geimvera og tveir menn úr geimverueftirlitinu sem voru að leita að geimverunni.
Bænakonurnar enduðu svo daginn með hverju herbergi. Ekki leið að löngu þar til það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar enda vel þreyttar eftir frábæran fyrsta dag hér í Vindáshlíð.
Þetta er alveg yndislegur stúlknahópur sem er hér saman komin í Stubbaflokki. Þær eru fjörugar, glaðar og ekkert smá skemmtilegar og okkur hlakkar mikið til að kynnast þeim betur þennan tíma sem við fáum að njótu með þeim hér í Hlíðinni.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjastfrétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að posta þar í story.
Við munum svo reyna að vera dugleg að setja inn myndir úr flokknum en þær verður hægt að finna hér: Myndir
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona