Í morgun vöknuðu stelpurnar eld hressar enda spenntar fyrir deginum hér í Vindáshlíð. Við byrjuðum á því að fá okkur morgunmat þar sem í boði var að fá sér cheerios eða kornflex með mjólk eða súrmjólk en svo var hafragrauturinn líka á sínum stað fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat er hefð fyrir því hér í Vindáshlíð að halda út að fánastöng en þar er fánahylling á hverjum morgni. Eftir fánahyllingu var svo haldið niður í kvöldvökusal á morgunstund með forstöðukonu þar sem við sungum nokkur lög saman og spjölluðum aðeins saman. Að þessu sinni fengu þær að læra aðeins betur um Biblíuna og hvernig hún getur verið góður leiðarvísir í gegnum lífið þegar að manni til dæmis líður ekki vel.

Eftir morgunstundina fóru allar stelpurnar saman út í íþróttahús þar sem að var haldið brennómót Stubbaflokks þar sem að herbergin kepptust á um að standa uppi sem sigurvegarar. Það var að lokum Barmahlíð sem unnu mótið eftir spennandi leik á móti Grenihlíð sem endaði í 2.sæti. Eftir brennómótið var komið að frjálsum tíma þar sem var enn og aftur allskonar í boði eins og að gera vinarmbönd, fara í íþróttakeppnir og margt fleira.

Í hádegismat var kjúklingur og franskar en að honum loknum fengu allar stelpurnar að setja á pizzurnar sínar fyrir kvöldmatinn í kvöld sem að sjálfsögðu sló í gegn. Að því loknu var útivera en að þessu sinni var farið í göngu að Brúðarslæðu sem er lækur hér í nágrenni Vindáshlíðar. Þar fengu stelpurnar að vaða, bursla og njóta enda yndislegt veður hér í Hlíðinni í dag.

Þegar að heim var komið var komið að kaffitíma en þar fengu stelpurnar brauðbollur og amerískar smákökur. Eftir kaffið var komið að hinum sí vinsæla og skemmtilega vinagangi. En vinagangur er eitthvað sem að við gerum alltaf á veisludag hér í Vindáshlíð en þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á hárgreiðslu, nudd og bangsapössun en svo var allskonar annað líka í boði. Um klukkan sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem framundan var. En á seinasta kvöldi í hverjum dvalarflokki er veislukvöld með allskonar tilheyrandi.

Við byrjuðum á því að fara upp í Kirkju þar sem við vorum með okkar eigin messu. Við sungum saman lög og svo heyrðum við söguna af Miskunsama samverjanum. Það er saga sem að Jesú kenndi lærisveinunum sínum um að vera góð hvort við annað sama hver náunginn er eða hver hans bakgrunnnur er. Það er svo mikilvægt að vera góð hvort við annað því þá líður okkur öllum svo miklu betur.

Að messsu lokinni var svo komið að veislukvöldmat þar sem að var boðið upp á pizzurnar sem að stelpurnar settu á fyrr um daginn og fengu þær djús með. Næst tók við veislukvöldvakan þar sem að foringjarnir stigu á stokk og voru með nokkur leikrit. Þegar að kvöldvakan var búin fengu stelpurnar banana og mjólkurkex í kvöldkaffi en svo héldu þær á hugleiðingu. Á hugleiðingunni fengu stelpurnar að heyra söguna Þú ert frábær sem minnir okkur á það að við erum öll frábær eins og við erum, við erum öll ólík með ólíka hæfileika en öll svo frábær. Ekkert okkar er eins en við erum öll dýrmæt sköpun Guðs.

Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínu herbergi. Það voru því vel þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðarríkan dag. Á morgun fer rútan frá Vindáshlíð kl 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 15:00. Þau ykkar sem ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð verðið því að sækja þær ekki seinna en 14:00. Endilega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig á símatíma á morgun milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044.

Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur myndirnar úr flokknum á eftirfarrandi slóð: Myndir

Við í Vindáshlíð erum alveg rosalega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum hér í Stubbaflokki og hefðum sko heldur betur verið til í að fá að hafa þær lengur hjá okkur, þeirra verður sko saknað og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni.

Sjáumst á Holtavegi á morgun rétt fyrir 15:00

Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona