Það voru 50 eld hressar og flottar stelpur sem að lögðu af stað í jólaskapi upp í Vindáshlíð í gær. Þær voru komnar upp í Vindáshlíð rétt rúmlega 18:00 og jólaandinn sveif um svæðið enda Hlíðin skreytt frá toppi til táar. Stelpurnar byrjuðu á því að heyra nokkrar reglur en fengu svo fljótt að vita hvaða herbergi þær ættu að vera í og með hverjum. Allir fá að sjálfsögðu að vera með vinkonum sínum í herbergi. Stelpurnar fengu líka bænakonu, en hvert og eitt herbergi fær alltaf  sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir sínu  herbergi í gegnum flokkinn.

Stelpurnar skreyttu herbergin sín hátt og  lágt og gerðu þau fín fyrir helgina. Næst var komið að kvöldmat en þá var haldið pizza partý og allir fengu pizzu og auðvitað var vel borðað af henni. Því næst var komið að kvöldvöku en hún byrjaði á smá jóla spurningakeppni á milli herbergja en svo fengu allar stelpurnar að skreyta piparkökur þeim til mikillar gleði. Þegar að þær voru búnar að því fengu þær síðan að sjálfsögðu að borða þær.

Til þess að ljúka deginum með stæl var haldið á hugleiðingu þar sem að þær heyrðu var sögu frá Jesú og af hverju hann svo frábær að við höldum upp á Jólin því að hann fæddist þá. Það var nóg hægt að ræða um það enda eru jólin bara svo dásamleg. Stelpurnar enduðu svo daginn með sinni bænakonu og allir steinsofnuðu mjög fljótt eftir viðburðaríkan dag.

Stelpurnar vöknuðu kl. 09:00 í morgun, eiturhressar og tilbúnar í daginn. Þær byrjuðu á því að fá sér morgunmat en svo var að sjálfsögðu haldið út á fánahyllingu en það er gömul og góð hefð hér í Vindáshlíð. Eftir það var haldið beint í ratleikinn „Leitin að Jólunum“ þar sem að stelpurnar fóru út um allt svæðið í Vindáshlíð og leystu þrautir hjá hinum ýmsu karakterum sem hægt að finna í mismunandi jólasögum. Hér var á stjá Jólakötturinn, Jólasveinninn, Grýla, María Mey og Frú Santa Claus.

Eftir ratleikinn var haldið á morgunstund með forstöðukonu. Þar sungum við lög saman og heyrðu um sögu af hverju jólin kallast  hátíð ljóss og friðar. Allt verður svo heilagt að þó að það sé dimmt og drungalegt úti að þá er bjart innra með  okkur. Veröldin hlýnar og við fyllumst eftirvæntingu, von og trú. Þannig eru jólin. Yndisleg stund saman.

Í hádegismat var kjúklingur og franskar en síðan var frjáls tími þar sem að stelpurnar máttu velja sér að fara á allskonar stöðvar það var t.d. í boði að föndra jólaskraut og jólagjafir en fyrir þær sem voru ekki eins spenntar fyrir föndrinu þá var líka í boði að fara í brennó úti í íþróttahúsi, enda mikil eftirvænting alltaf fyrir brennó í Vindáshlíð. Eftir frjálsa tímann var kaffitími þar sem að stelpurnar fengu bananabrauð, súkkulaðiköku og heitt kakó. Stelpurnar voru mjög ánægðar með það að sjálfsögðu.

Nú erum við öll á fullu að undirbúa jóla-veislukvöldið sem að verður í kvöld en meira um það síðar.

Jólakveðjur,
Elísa Sif Hermannsdóttir
Forstöðukona