Komið þið sæl og blessuð.
Fyrsti flokkur sumarsins í Vindáshlíð hófst í gær. Það voru rúmlega 80 stelpur, auk starfsmanna sem lögðu af stað í rútunum frá Holtavegi og spennan var í hámarki. Rútuferðin gekk mjög vel og við vorum mættar í Vindáshlíð rétt fyrir klukkan 14.
Við byrjuðum á því að skipta stelpunum niður í herbergi og pössuðum auðvitað vel upp á að allar vinkonur og frænkur fengju að vera saman í herbergi. Leiðinlegasti en jafnframt mikilvægasti hluti dagsins var svo að fara yfir reglurnar sem gilda hjá okkur. Við vitum vel að stelpunum finnst ekkkert skemmtilegt að hlusta á slíkt þegar þær bíða spenntar eftir að geta notið alls þess sem Vindáshlíð hefur upp á að bjóða, en til þess að allt gangi vel og allir viti til hvers er ætlast þá er mikilvægt að fara yfir reglurnar í upphafi.
Aðalreglan er svo auðvitað sú að hér eru allir jafnir, allar eiga rétt á að að njóta og líða vel og til þess að það gangi upp verðum við að vera duglegar að sýna tillitssemi, hjálpast að og passa upp á hverja aðra. Þetta fannst stelpunum auðveld regla og þær sýndu það og sönnuðu í gær að það er líka mjög auðvelt að fara eftir þessarri reglu 😊
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í herbergjunum þá var smá rölt um húsið og nánasta umhverfi og kynning á svæðinu og svo beið okkar dýrindis kaffitími með heimabökuðu, möndluköku og bananabrauði.
Eftir kaffitíma byrjaði svo brennókeppnin sívinsæla og aðrir foringjar buðu upp á eitthvað skemmtilegt eins og t.d. íþróttakeppni, föndur þar sem hægt var að búa til armbönd, og spjall og kósý í setustofunni. Nokkrar stelpur fóru í það að undirbúa kvöldvökuna, en hvert herbergi fær að koma með eitt atriði á einhverja af fyrstu þrem kvöldvökum flokksins.
Rigningin setti smá svip á daginn þar sem mörgum þótti útivera ekkert spennandi og þær voru því mest megnis inni í húsi eða í íþróttahúsinu. En við bíðum eftir að það stytti upp og sólin láti sjá sig og sem betur fer lofar veðurspáin okkur a.m.k. þurrara veðri næstu dagana.
Kvöldmaturinn var klukkan 18:30 og þá bauð eldhúsið upp á grjónagraut og lifrarpylsu og þessi matur rann vel ofan í hópinn.
Kvöldvakan var næst á dagskrá og allar stelpurnar skemmtu sér mjög vel við söng og skemmtiatriði.
Eftir kvöldvöku var boðið upp á banana og matarkex áður en við settumst allar saman í setustofuna og lukum deginum saman með því að syngja nokkur róleg lög og hlusta á fallega sögu með góðum boðskap.
Það gekk svo ótrúlega vel að bursta tennur og fara í náttföt.
Í Vindáshlíð eru bænakonur ómissandi hluti af starfinu. Þær kynnast sínum stelpum best, fylgjast með að þær hafi það gott og enda svo daginn með þeim í spjalli og að lokum biðja þær saman með stelpunum. Í gær höfðum við þann háttinn á að bænakonurnar sátu inni hjá stelpunum eftir spjall og bænir, alveg þar til var komin ró og flestar, ef ekki allar, sofnaðar. Þetta þótti stelpunum mjög gott og þær voru flestar mjög fljótar að sofna. Það var komin góð ró í húsið um klukkan 23 og bara örfáar sem voru ekki sofnaðar þá.
Við erum ótrúlega ánægðar með þennan flotta hóp af dásamlegum stelpum sem við höfum fengið til okkar. Fyrsti dagurinn gekk svo ótrúlega vel, þær voru svo flottar, duglegar og jákvæðar og tóku vel í það sem var í boði. Við hlökkum mikið til að vera með þennan flokk næstu dagana og munum reyna að setja inn bæði fréttir og myndir á hverjum degi svo þið getið fylgst með hvað það er gaman hjá okkur.
Vindáshlíðarkveðjur, Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona.