Dagur 3 í Vindáshlíð
Í morgun vöknuðu stelpurnar margar mjög snemma en þær sem fóru snemma á fætur stóðu sig ótrúlega vel og það var alveg friður og ró í húsinu þar til um 8:30. Allar voru þær svo komnar á fætur um níu-leytið og alveg til í ný ævintýri á þessum fallega degi í Vindáshlíð.
Við fórum í morgunmat og gátum loksins haft fánahyllingu án þess að allir yrðu rennblautir. Eftir að fánanum hafði verið flaggað þá var biblíulestur í salnum okkar niðri. Við lærðum um það hvað við erum dýrmætar hver og ein og að Guð hafi skapað okkur og að hann elskar okkur nákvæmlega eins og við erum. Svo fengu allar stelpurnar að setja fingrafarið sitt á stórt hjarta sem var teiknað á enn stærra blað. Þetta gerum við til þess að minna okkur á að við erum einstakar, dýrmætar og elskaðar af Guði.
Skemmtileg dagskrá var svo í boði eftir biblíulestur og þar mátti finna æsispennandi brennókeppni, íþróttakeppnir, sturtuferðir herbergjanna, leiki og frjálsan tíma.
Hádegismaturinn var lasagne og salat og rann það vel ofan í svangar stelpur.
Við ákváðum að nýta góða veðrið vel í dag og drífa okkur í göngu út að fossi sem að er kallaður ”brúðarslæða” hér í Vindáshlíð. Stelpurnar fengu að taka með sér handklæði svo þær gætu buslað og leikið sér við fossinn. Þetta var mjög skemmtilegt og þær gleymdu sér í leik og gleði og mættu svo allt of seint í kaffitímann. Það var nú samt í góðu lagi, við erum ekkert að stressa okkur á þannig smáatriðum og skelltum bara í kaffitíma þegar allar voru komnar í hús aftur.
Kaffitíminn var dýrindis jógúrtkaka og heilsubótarsmákökur.
Eftir kaffitímann var aftur frjáls tími og allar stelpurnar fundu sér eitthvað skemmtilegt að gera. Það var margt í boði og engin þurfti að láta sér leiðast.
Kvöldmaturinn var svo girnileg mexico-kjúklingasúpa með osti og sýrðum rjóma. Þær borðuðu af bestu lyst, enda mjög góð súpa sem hægt er að mæla með!
Kvöldvakan var á sínum stað og í kvöld voru það síðustu fjögur herbergin sem fengu að koma með atriði. Það var mikil gleði, mikið hlegið og auðvitað svoldið sungið líka. Kvöldvökurnar í Vindáshlíð eru alltaf fjörugar og skemmtilegar og þessi hópur er sko engin undantekning þar.
Í kvöldkaffi voru ávextir og svo fórum við allar saman inn í setustofu og hlustuðum á hugleiðingu um Guðs orð sem að einn foringjanna sagði okkur.
Við leyfðum þeim svo að fara út í læk til þess að bursta tennur, en það er mjög vinsælt og skemmtilegt hjá stelpunum. Eftir það komu bænakonurnar inn á herbergi og spjölluðu, báðu með þeim og sátu svo hjá þeim á meðan allt var að komast í ró og flestar að sofna eða sofnaðar.
Dagurinn hefur gengið glymrandi vel og þessi hópur er bara dásamlegur i alla staði. Ég held ég geti lofað því að þær flestar, ef ekki bara allar, voru mjög sáttar við þennan dag og þá erum við, starfsfólkið, líka mjög ánægð.
Í dag, sunnudag er síðasti heili dagurinn okkar og við köllum hann ”veisludagur”. Einnig er merkisdagur því þær sem ekki hafa komið áður, verða Hlíðarmeyjar. Hlíðarmey er sú sem að hefur dvalið 3 nætur eða lengur samfellt í dvalarflokki í Vindáshlíð. Mjög merkilegur titill til að bera 😊
Við minnum svo á að við komum í bæinn klukkan 15 á morgun, mánudag, á Holtaveg 28.
Bestu kveðjur úr Vindáshlíð.
Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona.