Það er sko aldeilis búið að vera líf og fjör á veisludeginum okkar hér í Vindáshlíð.

Við byrjuðum daginn á hefðbundinn hátt með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri. Morgunmaturinn var þó örlítið sérstakur því eins og ég sagði áður, þá hafa allar stelpurnar núna gist 3 nætur samfellt í Vindáshlíð og eru því orðnar Hlíðarmeyjar. Því fögnuðum við með Cocoa Puffs, ásamt hefðbundnum morgunmat.
Eftir morgundagskránna var komin tími á æsispennandi úrslitaleiki í brennókeppninni okkar, en fjögur efstu liðin kepptu um efstu þrjú sætin. Allar stelpurnar mættu og horfðu á leikina og hvöttu liðin áfram.

Hádegismaturinn var á sínum stað, en í dag var boðið upp á fisk í raspi og kartöflubáta. Flestar borðuðu mjög vel og fannst þetta góður matur.

Eftir hádegi var ákveðið að prufa eitthvað sem hefur ekki verið gert áður í Vindáshlíð svo við vitum til. Við skiptum hópnum í minni hópa, svona 15 – 18 í hverjum hóp og lögðum af stað. Við fórum í ævintýra-leysa þrautir göngu niður veginn okkar og alla leið út að Írafelli sem er bóndabær hérna á móti okkur í sveitinni. Þrautirnar snérust um samvinnu og gleði, að raða hópnum í aldursröð án þess að tala saman, búa til lag úr fyrirfram gefnum orðum, og leysa stafarugl.  Á Írafelli fengu stelpurnar m.a. að skoða litla hænuunga, gefa heimalingunum og fræðast um sveitina.
Þetta heppnaðist svakalega vel og stelpurnar voru allar í skýjunum með óvænta sveitaferð. Gangan var sú lengsta sem við höfum farið í (km) en samt mjög auðveld.
Þegar þær komu svo til baka í Hlíðina fríðu beið eftir þeim veisludagskaffitími í sólinni fyrir utan húsið. Það fannst þeim ekkert smá huggulegt og hópurinn naut þess að sitja úti og borða súkkulaðiköku og heilsubótarsmákökur (sem eru víst ekkert mjög hollar samt) 😊
Eftir heimkomu og útikaffitíma byrjuðum við að undirbúa veislukvöldið okkar. Þá klæða þær sig í betri fötin/sparifötin og bjóða upp á ”vinagang” en það snýst um að leyfa stelpunum að bjóða upp á hárgreiðslu, naglalakk, nudd eða annað sniðugt til að undirbúa okkur fyrir kvöldið og gera okkur fínar.

Veislukvöldið hófst á samveru í kirkjunni okkar. Þar fengu stelpurnar að heyra söguna um það hvernig kirkjan kom í Vindáshlíð. Eftir samveruna í kirkjunni tók við mjög hefðbundin dagskrá þar sem við tökum niður fánan og ”vefum mjúka dýra dúka” alla leið niður að skálanum okkar. Eftir það tókum við myndir af hverju herbergi með bænakonunni/konunum sínum og skelltum okkur inn í dýrindis pizzuveislu.

Verðlaun og viðurkenningar fyrir alls kyns keppnir voru veittar. Brennómeistarar, íþróttavinningar, innanhússkeppnin og íþróttadrottningin. Það var mikið fjör og mikið gaman og allar borðuðu þær mjög vel af pizzunum.

Kvöldvakan var svo toppurinn á dásamlegum degi. Foringjarnir fóru á kostum og unnu hvern leiksigurinn á fætur öðrum og uppskáru mikil fagnaðarlæti.

Kvöldkaffið var svo á sínum stað og við enduðum svo þennan fallega og frábæra dag á hugleiðingu um Guðs orð.

Þær fóru reyndar aðeins seinna að sofa en áætlað var, en þegar gleðin tekur völdin þá stundum gleymist tíminn aðeins. …og þegar maður fær svo ís í kvöldkaffinu og leyfi til að fara út í læk að tannbursta sig þá voru þær fljótar að fyrirgefa hversu seint var orðið. Það er þó örlítill möguleiki á að sumar stelpurnar verði mjög þreyttar í kvöld í staðin, en vonandi sofna þær allar glaðar og kátar með fullt af frábærum minningum í huganum.

Við erum búin að taka fullt af myndum sem munu birtast á myndasíðunni okkar. Við höfum bara verið örlítið uppteknar við að sinna stelpunum og hafa gaman, en vonandi koma fleiri myndir inn í dag. Endilega fylgist með og skoðið myndirnar með stelpunum ykkar þegar þær eru komnar heim.

Þessi fyrsti flokkur er búin að vera algjörlega frábær. Stelpurnar ykkar hafa staðið sig ótrúlega vel, þær eru glaðar, hressar, jákvæðar og ótrúlega tilbúnar að taka þátt og vera með í því sem við bjóðum upp á.
Ég vona að þær hafi eignast frábærar minningar og komi heim með gleði í hjarta og bros á vör.

1. flokkur sumarsins kveður úr Vindáshlíð
Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona.