Jæja gott fólk!

Þá eru tæplega 80 eldhressar stelpur mættar í Vindáshlíð og hér hefur aldeilis verið stuð.

Eins og margir vita er um að ræða ævintýraflokk og eins og nafnið gefur til kynna er nóg af alls konar ævintýrum og uppákomum þessa vikuna.

Komudagur 13. júní:
Stelpurnar mættu í gær og komu sér fyrir, fengu svo kryddbrauð og möndluköku með kaffinu og voru hæstánægðar með það. Svo tók strax við brennókeppni, íþróttakeppni og fleira fjör þar sem þær nutu sín mjög. Í kvöldmat fengu þær grjónagraut sem vakti mikla lukku og var hann nánast borðaður upp til agna (sem gerist ekki oft).
Eftir kvöldmat var farið í ratleik, bæði til að kynnast svæðinu og til að hrista saman hópinn. Þær stóðu sig eins og hetjur og voru vel til í kvöldkaffi, kex og ávexti, eftir leikinn. Eftir kvöldvöku (ratleik í þetta skiptið) var svo hugleiðing sem er róleg stund til þess að klára daginn saman. Þar sem um ræðir ævintýraflokk var að sjálfsögðu bænakonuleit, þar sem herbergin fengu orðarugl sem þær þurftu að leysa úr til þess að vita hvað sín bænakona heitir og svo þurftu þær að leita að þeim um allt hús. Þegar þessu lauk áttu þær stund með sinni bænakonu og svo var farið að sofa. Það vottaði fyrir smá galsa fyrsta kvöldið sem er nú eðlilegt og vel skiljanlegt enda fáránlega skemmtilegt að vera í sumarbúðum.

Miðvikudagur 14. júní:
Í dag er MAMMA MIA dagur. Foringjarnir klæddu sig upp og vöktu stelpurnar með Mamma Mia lögum og gleði og hafa verið atriði í hverjum matartíma sem stelpurnar kunna vel að meta. Eftir morgunmat er alltaf það sem við köllum „biblíulestur“. Þar er stutt fræðsla um ýmislegt og þar sem forstöðukona fær smá tækifæri til að spjalla við stelpurnar um hitt og þetta. Í morgun vorum við aðeins að pæla í Biblíunni og hvað það væri nú eiginlega og hvernig maður gæti notað hana.
Í hádeginu fengu stelpurnar plokkfisk sem þær borðuðu af bestu lyst (enda afburða góður plokkfiskur í hlíðinni). Eftir hádegi var útivera þar sem farið var í leik þar sem átti að finna stöðvar um svæðið og leysa þrautir. Þó þurfti að passa sig þar sem foringjar voru að hlaupa um og reyna að ná þeim áður en þær gætu leyst þrautir. Þetta var virkilega skemmtilegt og ótrúlega skemmtilegur hópur sem við erum með
Í kaffinu var svo jógúrtkaka og súkkulaðibitasmákökur og að venju borðuðu þær vel!
Í kvöld verður svo Vindáshlíð got talent sem er hæfileikasýning og mega stelpurnar vera með atriði að vild.

Hér er mikið stuð og mikið gaman og ekkert nema frábærar og flottar stelpur að skemmta sér saman.

Hlýjar kveðjur frá forstöðukonu,
Kristjana