Góðan dag!

Hér heldur stuðið áfram.

Dagur 2:
Í gær voru tortillur með hakki og grænmeti í matinn sem stelpurnar voru mjög ánægðar með. Svo var vel heppnuð hæfileikasýning sem endaði með kvöldkaffi og svo hugleiðingu. Þegar stelpurnar héldu svo að þær ættu að fara að sofa komu foringjarnir þeim á óvart með náttfatapartýi. Þar var dansað upp á borðum, hlegið að foringjum með atriði og að lokum borðaður ís með bestu lyst. Stelpurnar fóru svo að sofa og fengu aðeins að sofa út í morgun.

Dagur 3:
Í morgun vöknuðu stelpurnar glaðar að vana eftir skemmtilegt kvöld. Þá tók við morgunmatur, svo var hífður upp fáni áður en farið var á biblíulestur. Við töluðum um Ester og hennar sögu í Biblíunni og hlustuðu stelpurnar með eftirtekt enda fáar heyrt um hana áður. Eftir það tók svo við brennó, íþróttakeppnir, föndur og leikir – eins og má lesa er nóg að gera hjá okkur í Hlíðinni.

Í hádeginu fengu stelpurnar svokallaða „Sloppy Joes“ og kartöflubáta sem þeim líkaði vel. Í útiveru í dag fengu svo allir foringjarnir grænar bólur og bauga og þurftu stelpurnar að leysa ýmsar þrautir til að komast undan foringjum og „flýja úr Vindáshlíð“. Þetta var auðvitað allt leikur en þær skemmtu sér stórkostlega og fannst afar skemmtilegt að sjá foringjana í þessum hlutverkaleik.

Veðrið hefur batnað aðeins hjá okkur í dag og er því stefnan tekin á létta göngu eftir kvöldmat og munu þær svo koma heim í Hlíðina þar sem verður óvænt kaffihúsakvöld. Þar verður boðið upp á heitt kakó og með því.

Þetta er hress og skemmtilegur hópur enda eðalstelpur hér á ferð.

Hlýjar kveðjur frá forstöðukonu,
Kristjana