Góðan og blessaðan dag.

Í Vindáshlíð er enn fjör og gaman og eru stelpurnar í massastuði.

Dagur 3:
Í kvöldmatinn í gær voru kjötbollur og kartöflumús með brúnni sósu sem vakti gleði meðal stelpnanna okkar. Eftir það löbbuðu þær að Pokafossi, heyrðu þar söguna um fossinn og fóru svo í leiki. Þegar þær komu til baka voru þær steinhissa enda búið að undirbúa kaffihúsakvöld. Þar þjónuðu foringjarnir þeim og þær fengu nýbakað eplapæ með dýrindis karamellusósu. Eftir þetta var hugleiðing í kirkjunni okkar sem er hérna á svæðinu og var svo haldið í háttinn.

Dagur 4:
Í dag er hátíðisdagur! Þegar stelpur koma í fyrsta sinn og hafa gist þrjár nætur í Vindáshlíð verða þær Hlíðarmeyjar. Þá er fagnað með Cocoa Puffs í morgunmat sem vakti mikla lukku. Eftir morgunmat var svo biblíulestur en þar var rætt um traust og fóru stelpurnar í traustæfingar. Þetta gekk mjög vel og fannst þeim mjög gaman. Í hádegismat voru svo kjúklingaleggir, franskar og kokteilsósa sem rann ljúflega niður. Eftir mat var farið í útileik sem dregur innblástur úr Hungurleikabókunum og myndunum og hlupu þær hér um svæðið í eins konar eltingaleik. Þær voru orðnar svangar þegar þessu lauk og fengu bollur og kókosköku með súkkulaðikremi í kaffinu. Brennókeppnin er svo enn í gangi og fer alveg að koma að úrslitum og má vægast sagt segja að spenningur sé í húsinu. Þær hafa einnig keppt í ýmsum „íþróttakeppnum“ sem fela m.a. í sér rúsínuspýtingar, köngulóarhlaup og minniskeppni.

Við erum spenntar fyrir kvöldinu en ekki má gleyma að segja frá því að í dag er þemadagur og eru foringjarnir klæddir sem ofurhetjur og hafa verið með atriði tengd því í dag. Í kvöld verður svo keppni milli herbergja um hverjum tekst að búa til flottasta ofurhetjubúninginn úr ruslapokum, garni, pappír og fleiru.

Takk fyrir að treysta okkur fyrir stelpunum ykkar, okkur þykir ofboðslega vænt um þær.

Hlýjar kveðjur frá forstöðukonu,
Kristjana