Hæ hó og jibbý jey!

Stelpurnar eru hressar og kátar að vana og höfum við skemmt okkur vel síðustu daga.

Dagur 4:
Í kvöldmat í gær fengu stelpurnar mexíkóska kjúklingasúpu sem þeim fannst ofboðslega góð. Eftir kvöldmat fóru þær og bjuggu til ofurhetjubúninga úr ruslapokum og fleiru og héldu svo tískusýningu. Þetta lukkaðist mjög vel og má segja að stelpurnar búi yfir miklu hugmyndaflugi og sköpunargleði. Eftir þetta héldu þær á hugleiðingu og fengu svo kvöldkaffi. Hér í Vindáshlíð er að finna svokallaðan „tannburstalæk“ og finnst þeim mjög spennandi að fá að bursta tennurnar í læknum fyrir háttinn en það gerðu þær einmitt margar í gærkvöldi.

Dagur 5:
Í dag er 17. júní! Hér í Hlíðinni voru stelpurnar vaktar með þjóðhátíðarstæl sem þeim fannst mjög skemmtilegt og hefur dagurinn verið einstaklega fjörugur hjá okkur. Þetta er síðasti heili dagurinn hjá stelpunum sem kallaður er veisludagur í Vindáshlíð svo það má segja að það hafi verið tvöföld hátíð. Við fórum upp í kirkju eftir morgunmat þar sem við lærðum um þjóðsönginn og fengum upplestur á honum frá fjallkonu. Eftir það var að sjálfsögðu brennó þar sem keppt var um hverjar yrðu brennóherbergið og keppa við hina alræmdu foringja á morgun.

Svo var hádegismatur þar sem í boði var steiktur fiskur og franskar sem þær voru sæmilega ánægðar með. Eftir mat var haldið í útiveru þar sem stelpurnar útbjuggu eins konar vegabréf sem þær svo notuðu á stöðvum um svæðið okkar. Á hverri stöð var þraut og þegar þær höfðu lokið þeim öllum fengu þær nammi í tilefni dagsins og það er líklega óþarft að segja að okkar konur kunnu svo sannarlega að meta það.

Í kaffinu hafði svo verið bökuð risastór súkkulaðikaka skreytt fánanum okkar og stelpunum fannst þetta algjörlega frábært. Eftir kaffi var svo „vinagangur“ þar sem herbergin buðu upp á ýmislegt spennandi eins og hárgreiðslu, naglalökkun, leiki o.fl. og buðu hinum herbergjunum í heimsókn. Í kvöldmatinn var svo pizza sem þær borðuðu með bestu lyst og héldu þær svo á veislukvöldvöku þar sem foringjarnir brugðu á leik með hinum ýmsu atriðum. Eftir þetta höfðum við rólega stund saman þar sem við borðuðum ís og hlustuðum á sögu.

Það er búið að vera svo gaman hjá okkur og þessi hópur af stelpum er algjörlega frábær!

Hlýjar kveðjur frá forstöðukonu,
Kristjana