Heil og sæl öll Héðan er allt gott að frétta og fínasta veður. Stelpurnar komu spenntar í Vindáshlíð í gær, 84 skvísur sem eru tilbúnar að eiga bestu viku í heimi saman. Eftir mikið púsl að raða í herbergi fóru allar að koma sér fyrir og skoða staðinn aðeins. Síðan var ljúffengt kaffi og þaðan lá leiðin í íþróttir, broskeppni og kraftakeppni, föndurherbergi, sull í læknum, leiki í íþróttahúsi og annað skemmtilegt. Eftir kvöldmat var farið í samhristingskvöldvöku í íþróttahúsinu og voru allar kátar, glaðar og jákvæðar. Þetta er frábær hópur og skiptir miklu málið þessi jákvæðni og gleði sem virðist vera heilt yfir. Síðan eftir kvöldkaffi fórum við á Hugleiðingu dagsins, sungum og róuðum okkur niður. Fórum síðan að hátta, pissa og bursta og fannst mörgum gaman að prófa að bursta tennur í læknum. Stelpurnar áttu síðan að leysa nafnaþraut og leita að bænakonunum sínum sem þeim fannst skemmtilegt. Örlítil heimþrá lét á sér kræla en alls ekki mikil, enda starfsfólkið hér öllu vant og með bestu knúsurum landsins. Ró var komið í hús um miðnætti og átti að fá að sofa til 9, sem voru mikil fagnaðarlæti með um kvöldið en síðan voru lang flestar vaknaðar fyrir það og komnar á ról. Morgunmatur var 9.30 og þaðan var haldið upp á fána, hann sunginn upp að venju og síðan haldið á Biblíulestur í kvöldvökusal. Þar heyrðum við um hugrekki og sýna hvað í okkur býr, hafa trú á okkur og ekki hlusta á neikæðnisraddir í kringum okkur. Ekki bera okkur saman við aðra, því við hefðum oft aðra kosti en þeir sem væru okkur næstir. Við sungum og höfðum gaman áður en haldið var í brennóleiki, íþróttakeppnir, minnisleik og 90 gráðu beygju, föndur, vinabönd, frjálst og spil. Í hádegismat var pastahlaðborð sem rann ljúflega niður og bíður þeirra súkkulaðikaka og bananabrauð í kaffinu. Það er þurrt og fínt veður og allar í Amacing race leik á svæðinu þar sem herbergin leysa ýmsar þrautir saman. Eftir kaffi verða síðan áfram brennóleikir, íþróttakeppnir, föndur, sturtur, spil og frjálst. Myndir koma reglulega inn yfir dagana svo endilega fylgist með okkur.
B.kv. úr Vindáshlíð, Hanna Lára forstöðukona