Fyrstu tveir dagarnir hafa verið ansi viðburðarríkir hér í ævintýraflokki í Vindáshlíð. Mikið um að vera og dagskráin hefur verið mjög þétt hjá okkur. Brennókeppnin hefur farið vel af stað sem og aðrar íþróttagreinar. Eins og húshlaupið, 90°, broskeppnin og fleira, það er mikið keppnisskap í stelpunum.

Á mánudagskvöldið eftir kvöldkaffi og hugleiðslu fengu stelpurnar að bursta tennur út í læk og vakti það mikla gleði enda stytti loksins upp og komið þetta fallega veður. Síðan fóru stelpurnar inn á herbergi og biðu eftir bænkonum því þegar þær koma inn er tekið spjall og stundum farið í stutta leiki eins og varúlf. Það var þó ekki í þetta skipti því það var slegið á létta strengi og bænakonurnar komu syngjandi glaðar inn ganginn með tilkynningu um að það væri komið náttfatapartý. Mikil skemmtun hófst þar sem var sungið og dansað (uppá borðum meira segja). Eftir gleðina var síðan haldið aftur í setustofu þar sem leikþáttur var settur á að hætti foringja. Allir fengu síðan íspinna og hlustuðu á Þakkarkörfuna. Saga sem fjallar um þakklæti og hvað það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir það sem við fáum og höfum.

Á þriðjudagsmorgun fengu stelpurnar aðeins lengri svefn ef morguninn áður enda farið seint að sofa. Þegar þær voru vaktar dundi yfir tónlist úr Mamma mía, en þemað í dag var einmitt mamma mía. Þriggja þátta leiksýning var sett upp og voru stelpurnar mjög spenntar. Leikþáttur hófst í hádeginu og endaði í kvöldkaffinu. Foringjar voru klæddar í kjóla og matsalurinn skreyttur með allskonar veifum, blómum og fleiru. Eftir hádegið fóru stelpurnar ásamt foringjum í gönguferð niður að rétt og fengu þær dásemdar veður á meðan þær voru þar, þó sólin hafi ekki komið þá var þurrt og hlýtt.

Ævintýrin gerast í Vindáshlíð og fleiri fréttir koma inn fljótlega

Bestu kveðjur frá okkur öllum í Hlíðinni fögru.