Sæl veriði,

Jólin komu snemma í ár, stelpurnar voru vaktar upp við jólastemmningu og þegar þær mættu í matsal var búið að skreyta með jólaskrauti og seríum. Jólakötturinn mætti á svæðið og reyndum við að reka hann út en hann var með smá vesen en út fór hann.

Í biblíulestrinum höfum við verið að taka orðin fylgjandi, gleði, þakklæti og vinátta, það er mjög gaman að fylgjast með hvað stelpurnar hlusta vel og taka þátt í umræðum. Í dag eftir hádegismat (kjötbollur, kartöflumús og heimalöguð rabbabarasulta) var farið í leik sem kallast „Flóttinn“  sem er mjög skemmtilegur leikur sem er utandyra og leitast þær eftir vísbendingum um allan skóg í kringum Vindáshlíð. Þegar inn var komið beið þeirra nýbökuð möndlukaka ásamt súkkulaðibitakökum sem runnu ljúft niður. Eftir kaffi var síðan haldið áfram með brennó keppnina enda er keppnin orðin æsispennandi og það skýrist fljótlega hverjar sigra og mæta síðan foringjum á lokadeginum. Síðan kom kvöldmatur og var jólagrautur (grjónagrautur og slátur) í boði og borðuðu stelpurnar með bestu list. Eftir kvöldmat var síðan kvöldvaka og að þessu sinni var spurningakeppnin: Viltu vinna milljón og var mikil skemmtun þar enda ýmis fróðleikur sem spurt var um. Kvöldkaffið var á sínum stað og eftir hana var síðan haldið í setustofu á smá hugvekju þar sem lesin var sagan Þú ert frábær en þessi saga segir okkur að við erum bara frábær eins og við erum. Guð elskar okkur einmitt eins og við erum! Flott saga um kærleika og hlýju en einnig um einelti og vanlíðan.

Við vonum að þið hafið gaman af þessum fréttum 😊.

Bestu kveðjur úr Vindáshlíð, Erla forstöðukona