Veisludagur runnin upp og stelpurnar vöknuðu hressar og kátar. Það var langur dagur í dag og margt um að vera. Hann byrjaði á morgunmat og síðan biblíulestri en eftir það var haldið niður í íþróttahús. Það var komið að undanúrslitum í brennókeppninni, mikil spenna og mikið drama fylgdi þessum leikjum. Enginn vildi tapa en það sat eitt lið eftir sem sigurvegari. Eftir brennó var hádegismatur (plokkfiskur og rúgbrauð) og eftir matinn var farið í ævintýralega gönguferð sem endaði með fatahönnun og tískusýningu í íþróttahúsinu, það voru mjög frumlegir búningar sem þær hönnuðu. Þegar komið var aftur upp í hús tók við kaffitími þar sem ný bökuð gulrótarkaka tók á móti stelpunum. Ein afmælis skvís var í hópnum í dag og var sungið fyrir hana á Hlíðarmeyja sið.
Eftir kaffi byrjaði síðan vinagangur, þar sem stelpurnar buðu upp á allskonar dekur, hárgreiðslu, naglalakk, tattoo, nudd og margt fleira. Fljótlega var síðan klætt sig í sparifötin og við skunduðum upp í kirkju þar sem við heyrðum söguna af dásamlegu kirkjunni okkar í Vindáshlíð. Eftir kirkjuna marseruðum við niður að húsi með söngnum Vefa mjúka. Þá var myndataka með sinni bænakonu áður en haldið var inn í matsal í pizzaveislu. Viðurkenningar voru veittar fyrir allmargar þrautir og keppnir sem stelpurnar hafa tekið þátt í þessa vikuna. Við segjum nú ekki hverjar voru sigurvegararnir því stelpurnar þurfa nú að segja fréttir heima líka 🙂
Á morgun er síðan heimferðardagur og vonum við að stelpurnar fari heim alsælar eftir þessa dvöl hér í Vindáshlíð. Það er búið að vera virkilega gaman að kynnast þessum stelpum og fylgjast með þeim dafna þessa vikuna. Mikill kærleikur og vinátta ríkti í hópnum.
Takk fyrir vikuna og vonandi sjáumst við aftur að ári.