Eins og við var að búast er veðrið búið að leika við okkur þennan fyrsta sólar-hring hér í Vindáshlíð. Glampandi sól og gleði.

Hingað mættu 82 stúlkur eftir hádegi í gær og hófu dvöl sína í Vindáshlíð á því að finna herbergin sín, kynnast bænakonunni sinni, og fá smá skoðunarferð um staðinn. Margar eru að koma í Vindáshlíð í fyrsta skipti og því að læra á hnútana hérna hjá okkur.

Eftir að allir voru búnir að koma sér fyrir, búið var að fara í húshlaup, brennó og vinabandagerð, og búið að borða köku og grjónagraut, héldu stúlkurnar af stað í kvöldgöngu að Pokafossi. Pokafoss er aðeins um 10 mínútna ganga frá Vindáshlíð en þar heyrðu stúlkurnar söguna um fossinn og áttu þar gæða stund í góða veðrinu áður en þær héldu til baka og tóku frábæra söngstund á túninu hér í Hlíðinni þar sem hvert íslenska dægurlagið á fætur öðru var tekið fyrir.

Gærkvöldið reyndist nokkrum erfitt, sem er gríðarleg algengt á fyrsta degi – sérstaklega þegar þátttakendur eru svona ungir. En heimþráin og erfiðleikarnir við að sofna á nýjum stað létu að lokum undan og allar sofnuðu þær á endanum.

Dagurinn í dag er að fara vel af stað. Sólin skín enn skært – eins og hún hefur svosem lofað okkur að gera áfram út flokkinn – og gangarnir óma af gleði. Við reynum að vera með sem minnst af dagskránni innan dyra og hvetjum til útiveru í öllum frjálsum tíma. Eftir morgunmat og fánahyllingu í morgun var þó biblíulesturinn okkar innandyra en þar byrjuðum við að tala um Biblíuna . Eftir það voru íþróttakeppnir, brennó og vinabönd, og svo hádegismatur. Nú eru allir á fullu að undirbúa sig undir útiveru, en stefnt er á að fara í ratleik um svæðið núna klukkan 14:00.

Hópurinn er gríðarlega hress og skemmtilegur og stelpurnar virðast ná vel saman, þvert á aldur og herbergi.

Kv. Tinna Rós forstöðukona