Veislan heldur áfram hérna í Vindáshlíð, og þegar þetta er skrifað er hitinn við það að detta í 20 stig. Lækurinn er vinsælast staðurinn til að vera á þar sem stelpurnar ýmist vaða eða hreinlega „synda“ í læknum (sem felur í sér að leggjast niður í sundfötum, þar sem vatnsmagið býður ekki uppá frekara sund en það).
Gærdagurinn gekk ljómandi vel fyrir sig. Í útiverunni var farið í ratleik þar sem stelpurnar kynntust nærumhverfi Vindáshlíðar enn betur, og svöruðu alls kyns spurningum – til dæmis þar sem þær giskuðu á aldur foringjanna, bjuggu til sinn drauma matseðil í Vindáshlíð, og reyndu að finna út hver systrapörin tvo væru meðal foringjateymisins. Leikurinn vakti mikla lukku og er mikill spenningur fyrir því að heyra hvaða herbergi sigraði keppnina – en úrslitin verða kunngjörð á veislukvöldinu okkar á mánudaginn.
Í kaffinu var boðið uppá nýbakaðar lummur og ilmandi bananabrauð, auk ávaxta, til að ná upp orku áður en haldið var aftur af stað í brennó, kraftakeppni, vinabandagerð og almenna sumar-gleði. Í kvöldmat var boðið uppá grænmetissúpu sem átti ekki séns í vinsældir nýbakaða brauðsins sem var boðið uppá með henni. Tvö herbergi settu á svið leikrit á kvöldvökunni og eftir smá kvöldhressingu enduðum við dagskrá dagsins á hugleiðingu þar sem rætt var um páskahátíðina og hvernig Jesús dó fyrir okkur á krossinum.
Glaðar skvísur luku svo deginum með sínum bænakonum og gekk svæfingin mun betur en kvöldið áður. Mun minna var um heimþrá og mun meira af þreyttum stúlkum sem tóku fagnandi á móti svefninum.
Stúlkurnar voru svo vaktar klukkan 9 í morgun, og flestar þeirra enn sofandi þá (ólíkt gærmorgninum). Eftir morgunmat og fánahyllingu var Biblíulestur þar sem þær lærðu að fletta upp í Biblíunni, og æfðu sig svo í því. Þar eftir voru brennóleikir, íþróttakeppnir, vinabandagerð og lækjarstuð, og nú sitja þær og gæða sér á lasagne og hvítlauksbrauði til að safna orku fyrir daginn, en það er mikil og skemmtileg dagskrá í vændum sem við segjum ykkur betur frá á morgun!
Með sólarkveðjum úr Kjósinni,
Tinna Rós, forstöðukona