Í þessum töluðu orðum eru 82 stúlkur og sex foringjar á leið með nesti að Sandfellstjörn þar sem planið er að synda og njóta sumarblíðunar – en hitinn hér í Kjósinni er kominn í 22 stig þegar þetta er ritað. Gangarnir anga af sólarvörn og flugnafæluspreyi og ófáar stúlkurnar hafa haft orð á því í morgun að þær eigi erfitt með að trúa því að þær séu í raun enn á Íslandi. Því miður hefur góða veðrið og gleðin þó líka dregið að sér lúsmýið sem er mætt á svæðið með látum og aðeins farin að jappla á nokkrum stúlknanna…en ekkert sem við leysum ekki með brennipenna, afterbite og stundum smá Lóritíni (þó aldrei nema í samráði við foreldra).

Gærdagurinn var virkilega vel lukkaður. Í útiveru var gengið að fossi hér rétt hjá sem kallast Brúðarslæða. Þar vörðu stúlkurnar dágóðum tíma við busl og leik, auk þess sem þær gæddu sér á nestinu sínu. Við heimkomu var svo boðið uppá útisturtur þar sem allir sem vildu græja sturtutímann sinn þannig, voru smúlaðir með brunaslöngu úti á grasi. Það vakti mikla kátínu, enda ekki á hverjum degi sem boðið er uppá spennandi sturtu-möguleika. Í kvöldmat var svo boðið uppá jarðaberjaskyr og pizzabrauð, áður en skundað var á kvöldvöku. Eftir kvöldkaffið var svo safnast saman í hugleiðingu þar sem sögð var sagan af „næsta staur“sem hefur þann boðskap að gott sé að búta niður stærri verkefni þannig að við sjáum þau bara „einn staur í einu“.

Hugleiðingin var þó höfð stutt í gærkvöldi þar sem fréttir bárust um það að póstur hefði borist í öll herbergi. Stúlkurnar hlupu því af stað til að athuga hvað biði þeirra og var þá um að ræða miða fyrir allt herbergið til að kíkja á Vindáshlíðar-kótelettuna. Foringjarnir komu svo dansandi inn eftir ganginum og sóttu allar stúlkurnar og fóru með þær út á gras þar sem haldið var svakalegt dans-partý. Það endaði með heimsókn góðra vina sem buðu uppá alls kyns brandara og söng, og enduðu á að gefa öllum stúlkunum Vindáshlíðar-útgáfu af smores. Kvöldið endaði svo á sögustund undir kvöldsólinni áður en stúlkurnar fóru aftur inn og gerðu sig til fyrir svefninn.

Á Biblíulestri í morgun spjölluðum við um kærleikan og hvernig hann er í raun grundvallarboðskapur kristinnar trúar. Við skoðuðum Litlu Biblíuna og tvöfalda kærleiksboðorðið, og enduðum á smá leik þar sem allar stúlkurnar fengu pappadisk á bakið og fóru á milli og skrifuðu falleg skilaboð til hvorar annarar. Allar taka þær svo diskinn með sér heim til minningar um þessa stund, og kærleikan þeirra á milli.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og styttist óðum í lok vikunnar. Veisludagur á morgun og heimkoma á þriðjudeg. Þó heimþráin sé farin að snarminnka hérna eftir því sem líður á, þá er ég viss um að hér séu 82 stúlkur sem bíða spenntar eftir að koma heim og segja sögur á þriðjudaginn.

Kv. Tinna Rós, forstöðukona