Í gær vöknuðu stelpurnar mjög hressar og kátar enda spenntar fyrir deginum sem beið þeirra hér í Hlíðinni. Þar sem að þetta er ævintýraflokkur voru stelpurnar að þessu sinni vaktar með sumarlögum og fengu allar flugmiða til Tenerife með Vindóairline eins og foringjarnir kölluðu það. Búið var að skreyta matsalinn hátt og lágt með sumarskreytingum, bara spiluð sumarlög og foringjarnir allir klæddir í sinn besta sumar klæðnað.
Í morgunmat var í boði að fá sé morgunkorn með mjólk eða súrmjólk. Eftir morgunmat er hefð fyrir því hér í Vindáshlíð að halda út að fánastöng en þar er fánahylling á hverjum morgni. Eftir fánahyllingu var svo haldið niður í kvöldvökusal á morgunstund með forstöðukonu. Í framhaldi af því byrjaði hin æsispennandi brennókeppni hér í Vindáshlíð þar sem herbergin keppast sín á milli og mun eitt herbergi standa uppi sem brennómeistarar 7.flokks 2023. Ásamt brennóinu var auðvitað í boði að taka þátt í íþróttakeppnum, fara í föndur, gera vinabönd eða annan frjálsan leik.
Í hádegismat var svo boðið upp á kjúklingaleggi og franskar áður en haldið var í útiveru. Að þessu sinni var haldið í stutta göngu að Brúðarslæðu en það er lækur hér í nágrenni Vindáshlíðar. Þar fengu stelpurnar að vaða, busla og skemmta sér. Eftir útiveru var komið að kaffitíma en þar var á boðstólum pizzasnúðar ásamt kanillengjum. Eftir kaffi var svo enn og aftur frjáls tími þar sem keppt var í brennó og íþróttum eða haft það notalegt fyrir þær sem vildu.
Í kvöldmat voru Tortillas en svo tók kvöldvakan við, en að þessu sinni fóru stelpurnar í leikinn Capture the Flag. Þar er stúlknahópnum skipt upp í tvö lið og eiga þau að reyna að vinna að því í sameiningu að ná fánanum hjá hvort öðru, stelpurnar skemmtu sér konunglega og var gleðin mikil. Að lokinni kvöldvöku var komið að því að róa hópin aðeins niður og því haldið í kvöldkaffi og loks hugleiðingu. Að þessu sinni fengu stelpurnar að heyra sögu um hvað jákvætt og gott hugarfar kemur okkur langt en einnig töluðum við um æðruleysisbænina góðu.
Eftir hugleiðingu var í boði að fara út í tannburstalæk og bursta tennurnar fyrir þær sem vildu. Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínu herbergi og fóru því þreyttar en glaðar stelpur að sofa hér í gærkvöldi.
Ég minni enn og aftur á myndirnar sem hægt er að finna hér: Myndir
Bestu kveðjur úr Hlíðinni,
Elísa Sif forstöðukona