Í gær vöknuðu hressar og kátar stelpur eftir frábært náttfatapartý. Það var í boði að sofa aðeins lengur fyrir þær sem vildu þar sem við fórum aðeins seinna að sofa eftir partýið, enda vel þreyttar bæði eftir dásamlegan dag og frábært partý. Að þessu sinni voru þær vaktar með því að allir foringjarnir voru með kúreka hatta og því greinilega komin í villta vestrið í Ameríku. Matsalurinn var skreyttur með amerískum fánum og sungu stelpurnar bæði borðsönginn og fánasönginn á ensku sem þeim fannst bæði mjög skrýtið og fyndið.
Þegar að stelpurnar komu í morgunmat var þeim fagnað vel því reglan er sú hér í Vindáshlíð að ef að maður sefur þrjár nætur er maður formlega orðin Hlíðarmey og voru velkomnar í hópinn með því að bjóða þeim upp á coco pops. En ásamt því var að sjálfsögðu í boði að fá sér annað morgunkorn og mjólk eða súrmjólk með.
Eftir morgunmat var fánahylling á sínum stað og svo var komið að morgunstundinni góðu. Að þessu sinni ræddum við saman um sjálfsmyndina okkar allra. Við eigum það allar sameiginlegt að brjóta okkur stundum niður en við fórum yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar að okkur líður ekki nógu vel með okkur sjálfar. Við minntum okkur líka á að Guð sér okkur sem fullkomna sköpun sína og hvað það sé frábært að við séum allar ólíkar með ólíka hæfileika. Eftir þessa góðu stund saman fóru stelpurnar í frjálsan tíma þar sem allt var að sjálfsögðu á sínum stað líkt og brennó, íþróttir, vinarmbönd og margt fleira.
Í hádegismatinn var svo boðið upp á lasagna en svo var haldið í útiveru. Að þessu sinni fóru stelpurnar í smá gönguferð að réttunum sem eru hér í grennd við Vindáshlíð en þar var farið í réttarleikinn þar sem að stelpurnar eru kindurnar og foringjarnir eru bændurnir að elta þær og setja þær í dilka eftir t.d. lit á úlpu eða álíka.
Þegar að komið var upp í Vindáshlíð var komið að kaffitíma þar sem boðið var upp á amerískar smákökur og brauðbollur. Síðan var enn og aftur komið að frjálsum tíma fram að kvöldmat þar sem að stelpurnar kepptu enn og aftur í brennó, tóku þátt í íþróttakeppnum eða voru að undirbúa kvöldvöku kvöldsins . Í kvöldmat var svo boðið upp á mexíkóska kjúklingasúpu.
Í kvöldvöku var komið að hæfileikakeppninni okkar góðu sem er kölluð Vindó Got Talent þar sem að stelpurnar voru búnar að undirbúa allskonar atriði sem sýnd voru á sviðinu okkar. Það var mikið stuð á kvöldvökunni og mikið hlegið. Loks var komið að kvöldkaffi og hugleiðingu en að þessu sinni ræddum við saman um fyrirgefninguna sem að er svo mikilvæg, en við verðum að kunna að bæði að segja fyrirgefðu og sjá að okkur og taka við fyrirgefningarbeiðninni því þá líður okkur svo miklu betur.
Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínum stelpum en það er með vinsælustu tímum stelpnanna enda eru foringjarnir auðvitað æði. Bænakonurnar fengu að vera í góðan tíma inni hjá stelpunum og voru þær mjög þakklátar og glaðar með það. Stelpurnar sofnuðu svo mjög fljótt eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag.
Minni enn og aftur á myndirnar sem eru hér: Myndir
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona