Hingað í Hlíðina fríðu mættu tæplega sextíu hressar stelpur í gær. Eftir að hafa hlustað á reglur og komið sér fyrir á herbergjum fengu þær ljómandi góða köku í kaffinu og höfðu sumar þeirra orð á því að þetta væri bara besta kaka sem þær hefðu smakkað á ævi sinni. Brennókeppnin fór af stað í gær ásamt föndri, útiveru og almennum skemmtilegheitum. Berglind ráðskona og hennar stöllur buðu svo upp á grjónagraut og lifrarpylsu í kvöldmat sem rann ljúflega niður. Kvöldvakan fór fram í íþróttahúsinu þar sem Kristín Hanna og Bína Hrönn sáu um leiki með stelpunum. Á leiðinni í kvöldkaffi skelltu þær sér svo í útileikinn góða „Capture the flag“ og þegar kom að kvöldkaffi voru þær búnar að hlaupa heil ósköp hér úti. Bergrún las sögu í hugleiðingu, sungin voru nokkur lög og endað með kvöldbæn. Að hugleiðingu lokinni fóru stelpurnar að gera sig klárar í svefninn, þær sem vildu máttu bursta tennur í læknum og það mæltist vel fyrir. Bænakonur fóru svo inn á sín herbergi og áttu góða stund með stelpunum fyrir svefninn. Það voru þreyttar stúlkur sem lögðust á koddann og gekk öllum vel að sofna.

Dagurinn í dag hófst með morgunmat og að honum loknum var fánahylling og svo biblíulestur með Álfheiði forstöðukonu. Þar ræddum við um Biblíuna, hvers lags bók það væri og æfðum okkur aðeins að fletta upp í henni. Að sjálfsögðu tókum við lagið og það er óhætt að segja að stelpurnar taki vel undir í söng og þakið lyftist af húsinu þegar hæst lætur. Brennókeppnin, undir dyggri stjórn Bínu Hrannar, hélt svo áfram fram að hádegismat ásamt föndri, kraftakeppni og útiveru. Í hádegismat var boðið upp á pastasalat og tóku stelpurnar vel til matar síns. Eftir hádegismatinn sá Ísabella umsjónarforingi um ratleik en þá myndaði hvert herbergi lið og þvældust stelpurnar hér um nágrennið og leystu ýmsar þrautir. Þarna reyndi heldur betur á samvinnu og hugmyndaauðgi. Eftir ratleik beið okkar dýrindis kaka og svo tók brennókeppnin við ásamt broskeppni. Sumar stelpnanna fléttuðu vinabönd og aðrar skelltu sér í sturtu. Allar finna þær sér eitthvað til dundurs. Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, hamborgarar í boðinu sem slógu svo sannarlega í gegn.

Í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar á kvöldvöku þar sem hluti þeirra er búinn að undirbúa leikrit og ýmsa gjörninga til að skemmta hinum. Söngurinn fær að sjálfsögðu að fylgja með og mikil gleði sem fyllir salinn okkar.

Foringjarnir hafa verið duglegir að taka myndir af stelpunum ykkar og verða þær settar inn á myndasíðuna seinna í kvöld.

Við sem erum svo heppnar að fá að dvelja hér með stelpunum ykkar erum svo þakklátar og ánægðar með hópinn, hann gæti bara ekki verið betri, stútfullur af skemmtilegum og hressum stelpum.

Minni að lokum á símatímann sem er alla daga kl. 11:30 – 12:00 og númerið er 566-7044. Hikið ekki við að hringja ef þið viljið, ég er hér til að heyra í ykkur.

Hlíðarkveðjur,
Álfheiður, forstöðukona