Enn einn dagur að kveldi kominn hér í 9. flokki í Vindáshlíð. Hann hófst á hefðbundinn hátt, með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri þar sem við minntum okkur á að við erum hver og ein einstök og frábær eins og við erum. Við skoðuðum fingrafarið okkar og stimpluðum það á sameiginlegan kross sem hangir hér uppi á vegg og þannig minnum við okkur á að við erum allar einstakar og akkúrat eins og við eigum að vera.

Brennókeppnin er orðin æsispennandi, nú eru fjögur lið eftir í keppninni og kemur í ljós á morgun hvaða lið stendur upp sem sigurvegari keppninnar.

Eftir að hafa borðað kjötbollur og kartöflumús í hádeginu hélt hópurinn í gönguferð, fyrst að Pokafossi og svo að fossinum Brúðarslæðu þar sem stelpurnar óðu í ánni, léku sér og höfðu gaman saman. Það var heilmikið fjör og allar komu glaðar til baka. Þar beið þeirra sjónvarpskaka sem stendur alltaf fyrir sínu.

Eftir kaffi opnuðu sturturnar og svo héldu stelpurnar áfram að leika sér inni og úti, föndra, flétta vinabönd og undirbúa kvöldvöku.

Í kvöldmat var boðið upp á skyr og pizzabrauð og svo var kvöldvaka. Þar voru tvö síðustu herbergin búin að undirbúa atriði og söngurinn var á sínum stað sem endranær.

Nú eru allar komnir í ból og bænakonur eru hver inni á sínu herbergi að spjalla, lesa og fara með bænir með stelpunum.

Við hlökkum allar til morgundagsins, síðasta heila dagsins en þá er sannkallaður veisludagur. Meira um hann á morgun.

Kær kveðja,
Álfheiður, forstöðukona