Þá er heldur betur viðburðarríkur dagur á enda. Í morgun eftir morgunmat drifu stelpurnar sig upp að fánastöng þar sem fáninn var dreginn að húni og fánasöngurinn sunginn. Næst á dagskrá var Biblíulestur þar sem við héldum aðeins áfram að skoða Biblíuna og æfðum okkur áfram að fletta upp í henni. Við lásum um að Jesús er ljós lífsins og eins töluðum við um að við gætum lært margt um góða hegðun og framkomu í Biblíunni, t.d. að  hjálpa öðrum og tala fallega. Að Biblíulestri loknum hélt Brennókeppnin áfram og margar stelpnanna skelltu sér einnig í sturtu. Í hádeginu fengum við steiktan fisk sem hitti aldeilis í mark, margar hverjar vissu nú bara ekki að fiskur gæti verið svona góður! Eftir hádegið fór hópurinn í gönguferð niður í réttir og þar var farið í leiki. Þegar heim var komið beið dýrindis möndlukaka eftir því að verða borðuð og stelpurnar létu ekki sitt eftir liggja þar enda var hún afskaplega ljúffeng. Eftir kaffi var svo Brennó, einhverjar kíktu út í læk, aðrar fléttuðu vinabönd og einhverjar æfðu af kappi fyrir kvöldvöku. Já, hér er sko nóg að gera. Í kvöldmat fengum við mexíkóska kjúklingasúpu með öllu tilheyrandi sem féll vel í kramið. Stelpurnar eru mjög duglegar að borða og þakklátar fyrir hvaðeina sem borið er á borð. Á kvöldvökunni var mikið fjör, svo mikið að hlátrasköllin ómuðu hér um allt hús og gleðin var greinilega við völd. Að lokinni kvöldhressingu var Kristín Hanna foringi með hugleiðingu fyrir stelpurnar og las fyrir þær úr bókinni Við Guð erum vinir. Þær fóru svo að undirbúa sig fyrir svefninn og þegar þær voru allar komnar upp í rúm og biðu eftir bænakonunum birtust þær á ganginum, berjandi sleifum í potta og buðu í náttfatapartý. Stelpurnar vissu nú ekki alveg hvaðan á þær stóð veðrið en drifu sig fram í matsal þar sem tónlistin var keyrð í botn og heilmikið danspartý fór í gang. Þar var sko dansað upp á borðum og allar sungu þær hástöfum með. Að danspartýi loknu færðum við okkur yfir í setustofuna þar sem foringjarnir héldu áfram uppi stuðinu og skemmtu stelpunum með leikjum, söng og sögum. Þessi frábæra gleðistund endaði svo með því að allar fengu ís og meðan hann rann niður hlustuðu þær á sögu um mikilvægi þess að hafa taumhald á tungu sinni. Það voru því ánægðar en þreyttar stelpur sem lögðust á koddann í seinna lagi í kvöld, alsælar með daginn. 
Við hlökkum til morgundagsins en þá taka ný ævintýri við.

Hlýjar kveðjur heim,
Álfheiður, forstöðukona