Í dag var síðasti heili dagurinn okkar í 9. flokki. Hann einkenndist af miklum veisluhöldum bæði í leik og starfi. Í biblíulestri dagsins ræddum við um hvernig við getum verið góðar manneskjur, hvernig manneskjur við viljum vera og hvað við getum gert til að blómstra og sýna okkar bestu hliðar. Við skoðuðum það m.a. út frá gullnu reglunni sem við finnum í Matteusarguðspjalli, „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Brennókeppninni lauk í dag með sigri stelpnanna í Birkihlíð og þær fá þann heiður á morgun að keppa við foringjana. Það er gríðarleg stemmning í hópnum fyrir þeim leik.

Í hádegismat fengum við plokkfisk og rúgbrauð og að honum loknum skiptum við stelpunum í fjóra hópa og hófum undirbúning við kirkjustund. Sumar undirbjuggu bænir, aðrar æfðu leikrit, einhverjar æfðu söngva og enn aðrar sáu um að skreyta kirkjuna fyrir stundina. Allir lögðu sitt af mörkum og úr varð hin fallegasta stund seinnipartinn í dag. Að þeirri stund lokinni var myndataka og svo var komið að veislumáltíðinni þar sem hvert herbergi sat til borðs með sinni bænakonu í fallega skreyttum og kósý matsalnum.

Foringjarnir sáu svo um kvöldvökuna þetta síðasta kvöld og sýndu stelpunum alls kyns skemmtileg leikrit og hlátrasköllin glumdu hér um allt hús. Við fengum svo ís að lokinni kvöldvöku og Álfheiður forstöðukona sagði stelpunum sögu af stelpu sem hafði ekki alltaf hreina samvisku en lærði af mistökum sínum og gerði betur. Í lok sögunnar kom svo í ljós að þessi stelpa var Álfheiður sjálf á hennar yngri árum. Það þótti stelpunum merkilegt.

Þegar þetta er skrifað eru allar komnar í ró og langflestar sofnaðar. Á morgun lýkur svo dvöl okkar hér … í bili a.m.k. og við gerum ráð fyrir að vera komnar í bæinn einhvern tíma á bilinu 14:30-15:00. Hlökkum til að sjá ykkur á Holtaveginum.

Bestu kveðjur heim,
Álfheiður forstöðukona