Í gær komu 82 flottar stelpur til okkar í Hlíðina. Forstöðukona fór yfir reglur fyrir vikuna og foringjar skiptu stelpunum síðan í herbergi. Þegar að stelpurnar höfðu komið sér fyrir biðu þeirra ljúffengis jógúrtkökur og ávextir í matsalnum. Eftir kaffið tók við föndur, spjall og fyrstu brennóleikir, en fyrir þá sem ekki vita eru brennóleikir alla daga sem endar svo á úrslitaleik lokadaginn. Mörg herbergi eru mjög metnaðarfull og ætla sér að sigra alla leiki og að endingu líka vinna foringja í foringjaleiknum á brottfaradag. Í kvöldmat fengu stelpur grjónagraut og hann var kláraður upp til agna.

Í kvöldvöku fóru stelpurnar allar út í íþróttahús í leiki til þess að reyna hrissta hópinn saman. Eftir kvöldvöku komu þær inn í matsal (því jú þær borða endalaust oft) og fengu kvöldkaffi. Við enduðum svo á hugleiðingu inni í setustofu þar sem við hlustuðum á sögu og sungum róleg lög. Stelpurnar fengu svo að bursta tennurnar úti í læk sem slær alltaf í gegn. Smáveigis var um heimþrá í gær, en við töluðum mikið um við stelpurnar hversu eðlilegt það er að finna fyrir kvíða og stressi, alveg eins og að upplifa gleði og sorg, þetta eru allt tilfinningar sem gerir okkur af þeim stelpum sem við erum. Þær enduðu kvöldið með sinni bænakonu og svifu inní draumaheim eftir skemmtilegann dag.

myndir koma inná flickr, en læt tvær fylgja 🙂

 

Hlíðarkveðjur

Marín Hrund forstöðukona