Jæja, fyrsta nóttin yfirstaðin og flestar stelpurnar sofnuðu strax á koddann í gærkveldi. Eftir morgunmat fóru stelpurnar í fánahyllingu og þaðan beint í biblíulestur. Á biblíulestri talaði forstöðukona við stelpurnar um biblíuna og þær lærðu að leita af versum í biblíunni. Síðan tóku við brennóleikir og föndur.

Í hádegismat fengu stelpurnar kjötbollur og kartöflumús. Í útiveru fóru stelpurnar í ratleik um svæðið þar sem þær þurftu að klára ákveðin verkefni á blaði og fá fyrir þau stig. Allir leikir eru keppnir sem verða síðan veitt verðlaun fyrir á veislukvöldi. Öll herbergi eru líka í stigakeppni í hreinlæti og þær geta unnið sér inn allskonar stig t.d með því að hjálpa til í eldhús og að ganga frá í húsinu. Þær eru með mikið keppnisskap og við höfum sjaldan haft eins hrein herbergi í Vindáshlíð.

Eftir útiveru fengu stelpurnar súkkulaðiköku og heimabakað brauð í kaffitímanum og síðan héldu brennó og íþróttakeppnirnar áfram. Í frjálsum tíma er líka alltaf opið inní föndurherbergi og stelpurnar eru duglegar að föndra allskonar skemmtilegt. Í kvöldmat var pasta salat og þær eru mjög duglegar að borða. Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem nokkur herbergi sáu um atriði og síðar enduðu við kvöldið á kvöldkaffi og hugleiðingu, eða það var það sem við sögðum þeim. Því eftir smá stund inni í herbergi hlupu foringjar um gangana og sungu : HÆ, HÓ JIBBÍ JEI, það er komið náttfatapartý. Þar sungum við, dönsuðum og foringjar voru með atriði 🙂 kvöldið endaði svo á sögustund með forstöðukonu og stelpurnar fengu ís.

Frábær dagur <3

 

Hlíðarkveðjur

Marín Hrund forstöðukona