Í morgun voru stelpurnar vaktar með mamma mía tónlist og extra stuði, því í dag var sýndur söngleikurinn mamma mia með atriðum í öllum matartímum. Sagan um Hótel Vindó, með allskonar skemmtilegum karakterum sem syngja og sýna. Eftir morgunmat var komin grenjandi rigning og stelpurnar tóku því fánahyllingu inni. Í biblíulestri dagsins hlustu stelpurnar á sögu og tóku þátt í umræðu um góð samskipti og að öllum orðum fylgir ábyrgð. Við reynum að tala við stelpurnar um uppbyggilegt efni með góðum boðskap sem þær geta tekið með sér heim og munað eftir.

Eftir brennóleikir fengu stelpurnar lasagne og hvítlauksbrauð í hádegismat og auðvitað atriði úr Hótel Vindó. Í útiveru dagsins var stelpunum smalað upp í íþróttahús þar sem þær skiptu sér í herbergin sín  og tóku þátt í Vindó´s top model. Þá fá stelpurnar ruslapoka, skæri og bönd og eiga að búa til kjóla eða dress og labba síðan „the catwalk“. Dómarar velja síðan besta kjólinn sem hlítur viðurkenningu fyrir. Vegna þess hversu gott veður var komið eftir hádegið var ákveðið að hafa tískusýninguna úti og vakti það mikla lukku, en rúmlega 20 stiga hiti var úti.

Ljúffeng græn skrímslakaka beið eftir stelpunum í kaffitímanum. Seinni partinn var boðið upp á frjálst brennó, leiki og íþróttakeppnir. Flestar stelpurnar nýttu hlýjuna og voru úti að leika. Í kvöldmat fengu stelpurnar kjúklingaborgara og franskar og foringjarnir voru hissa hversu mikið svona litlir kroppar geta borðað. En það er vægt til orða tekið þegar ég segi að stelpurnar voru mjög ánægðar með þennan mat.

Í kvöldvöku sáu nokkur atriði um skemmtun og vekur þetta alltaf jafn mikla lukku. Í kvöldkaffi kláraðist söngleikurinn um Hótel Vindó þar sem aðalsöguhetjurnar giftust og þær þóttust kyssast, sem vakti upp mikinn hlátur. Við héldum út í rjóður í hugleiðingu kvöldsins og var mjög kósý að sitja í kyrrðinni og hlusta á fallega sögu um að gefast ekki upp. Sem á mjög vel við í þessari viku því margar hafa verið að upplifa mikla heimþrá.

Skemmtilegur dagur á enda <3

Hlíðarkveðjur

Marín Hrund
Forstöðukona