Í gær lögðu af stað um 60 hressar stelpur hingað upp í Vindáshlíð. Það var búið að skreyta hlíðina hátt og lágt og því ekkert annað í boði en að komast í jólaskap. Þær voru komnar upp í Vindáshlíð rúmlega 18:00 og jólaandinn sveif um svæðið. Við byrjuðum á því að fara yfir nokkrar reglur en fengu svo fljótt að vita í hvaða herbergjum þær ættu að vera í yfir helgina. Allir fá að sjálfsögðu að vera með vinkonum sínum í herbergi ásamt því að mögulega kynnast einhverjum nýjum vinkonum. Stelpurnar fengu líka bænakonu, en hvert og eitt herbergi fær alltaf  sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir sínu  herbergi í gegnum flokkinn.

Stelpurnar komu sér fyrir í herbergjunum sínum og margar komu með jólaskraut með sér og skreyttu því herbergin sín. Svo var komið að kvöldmat en þar var boðið upp á pizza partý og auðvitað var vel borðað af henni. Því næst var komið að kvöldvöku en hún var með jólalegu sniði að þessu sinni og fékk hvert og eitt herbergi að skreyta sitt eigið piparkökuhús. Það gekk mis vel að ná að halda húsunum uppréttum en það var þrátt fyrir það mikið jólastuð. Þegar kvöldvakan var búin var komið að kvöldkaffi þar sem boðið var upp á ávexti og piparkökur.

Til þess að ljúka deginum með stæl var haldið á hugleiðingu þar sem að þær heyrðu sögu um Jesú og af hverju hann svo frábær af hverju við höldum því upp á Jólin. Það var nóg hægt að ræða um það enda eru jólin bara svo dásamleg og allur kærleikurinn sem fylgir þeim. Stelpurnar enduðu svo daginn með sinni bænakonu og allir steinsofnuðu mjög fljótt eftir viðburðaríkan dag.

Stelpurnar vöknuðu kl. 09:00 í morgun, eiturhressar og tilbúnar í daginn. Þær byrjuðu á því að fá sér morgunmat en eftir morgunmat var morgunstund með forstöðukonu. Þar sungum við lög saman og heyrðu um sögu af hverju jólin kallast  hátíð ljóss og friðar. Allt verður svo heilagt að þó að það sé dimmt og drungalegt úti að þá er bjart innra með  okkur. Veröldin hlýnar og við fyllumst eftirvæntingu, von og trú. Þannig eru jólin. Yndisleg stund saman.

Að morgunstund lokinni var hópnum skipt í tvennt og boðið upp á tvær ólíkar stöðvar. Á einni stöðinni var boðið upp á jólaföndur en á hinni stöðinni var boðið upp á brennó enda alltaf mikil eftirvænting fyrir brennó í Vindáshlíð. Allir fóru á báðar stöðvarnar og gleðin var mikil.

Næst var komið að hádegismat en þar var á boðstólum Mexíkósk súpa með öllu tilheyrandi. Loks var haldið í útiveru þar sem við fórum í ratleikinn „Leitin að Jólunum“ þar sem að stelpurnar fóru út um allt svæðið í Vindáshlíð og leystu þrautir hjá hinum ýmsu karakterum sem hægt að finna í mismunandi jólasögum. Hér var á stjá Jólakötturinn, Jólasveinninn, Grýla, María Mey og Rúdolf

Eftir útiveru var komið að kaffitímanum sem er alltaf í miklu uppáhaldi hér í Vindáshlíð en þar var á boðstólum bananabrauð, jóla lagkaka og heitt kakó eftir örlítið kalda en skemmtilega útiveru. Nú erum við öll á fullu að undirbúa jóla-veislukvöldið sem að verður í kvöld en meira um það síðar.

Endilega fylgist með okkur á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að vera dugleg að setja í story þar um helgina. Annars eru komnar inn myndir úr flokkum og hægt er að nálgast þær hér: Myndir

Jólakveðjur,
Elísa Sif Hermannsdóttir
Forstöðukona