Það var heldur betur jólastuð hér á veislukvöld í jólaflokk í Vindáshlíð í gær. En eftir kaffitímann fóru allar stelpurnar inn í herbergin sín þar sem að hvert og eitt herbergi undirbjó atriði fyrir kvöldvökuna um kvöldið. Næst var boðið upp á hinn sí vinsæla vinagang. En vinagangur er eitthvað sem að við gerum alltaf á veisludag hér í Vindáshlíð en þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á hárgreiðslu og nudd en svo var allskonar annað líka í boði.

Rétt fyrir klukkan 18:00 hringdu kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju hér í Vindáshlíð en þá fóru allar stelpurnar upp í kirkju þar sem að við vorum með okkar eigin jólamessu. Þar sungum við saman róleg og falleg jólalög og heyrðum söguna um fæðingu Jesú ásamt því var farið í gegnum aðventukransinn og hvert og eitt kerti útskýrt ásamt söng. Eftir kirkjuna var komið að jólamatnum og ilmurinn í Hlíðinni varð alveg hreint dásamlegur og alveg eins og á jólunum. Boðið var upp á bayonne skinku, kartöflur og salat og svo fengu allar stelpurnar malt og appelsín sem vildu. Eftir kvöldmat var komið að kvöldvökunni en þar fengu öll herbergin að spreyta sig og leika listir sínar á sviði.

Þegar að kvöldvöku var lokið fóru stelpurnar í náttfötin sín og héldu inn á hugleiðingu í setustofunni. Þegar að stelpurnar héldu að hugleiðingin væri að byrja hoppuðu foringjarnir fram syngjandi og jóla-náttfatapartýið byrjaði. Þar fengu stelpurnar að syngja og dansa upp á borðum inn í matsal við öll fjörugustu og skemmtilegustu jólalögin. Í náttfatapartýinu kíktu líka nokkrar skrautlegar en skemmtilegar verur til okkar, hér voru á kreik Grýla en að þessu sinni var Grýla í leit að stefnumóti. Það endaði á því að allar stelpurnar fengu ís og hlustuðu á fallega jólasögu fyrir svefninn. Bænakonurnar enduðu svo daginn með hverju herbergi fyrir sig. Það voru þreyttar en glaðar stelpur sem að sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðaríkan dag.

Stelpurnar vöknuðu snemma í morgun og héldu í morgunmat. Eftir morgunmat var í boði að föndra meira, en þær sem vildu máttu pakka inn jólagjöfunum sínum og skrifa jólakort. Þegar að föndrinu var lokið fóru allar stelpurnar í íþróttahúsið þar sem keppt var til úrslita í Brennó, það var Birkihlíð sem stóð uppi sem sigurvegari að þessu sinni. Í hádegismat var möndlugrautur og var farið í þann klassíska jólaleik þar sem að allir fá graut og sú sem fær möndluna fékk pakka.

Við enduðum helgina allar saman á smá lokastund þar sem að farið var yfir allt það dásamlega sem við gerðum saman yfir helgina en ásamt því þá voru veittar viðurkenningar fyrir hinar ýmsu keppnir og þrautir sem eru búnar að eiga sér stað hérna yfir helgina eins og Innanhúskeppni og Leitin að Jólunum ratleikurinn.  Eftir lokastundina fóru stelpurnar að pakka og áttu lokastund saman sem herbergi með sinni bænakonu

Nú erum við að halda upp í rútu en hún leggur af stað héðan úr Vindáshlíð klukkan 14:00 og verðum því komnar á Holtaveg 28 rétt rúmlega 15:00.

Myndir úr flokknum er hægt að sjá hér: Myndir

Ég vil enda þennan póst á því að þakka ykkur kæru foreldrar/forráðamenn fyrir það eitt að lána okkur börnin ykkar hér um helgina. Við höfum haft unun að því að vera með þeim. Þetta eru alveg frábærar, jákvæðar og skemmtilegar stelpur sem að þið eigið og við vonumst eftir því að fá að hitta þær aftur í Hlíðinni á nýju ári.

Fyrir þá sem vilja þá er hægt er að fylgjast með okkur í Vindáshlíð á bæði Instagram og Facebook. Alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi hjá okkur. En ég má til með að láta ykkur vita að Jóladeginum okkar í Vindáshlíð sem verður þann 9. desember þar sem hægt verður að koma og njóta saman með fjölskyldunni. Jólamarkaður, jólatrjásala, jólasveinar kíkja í heimsókn, ratleikur og svo margt margt fleira. Vonandi sjáum við einhverjar þar.

Annars segjum við bara Gleðileg jól og farsælt komandi ár frá öllum úr Vindáshlíð,

Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif Hermannsdóttir
Forstöðukona