Í gær lögðu af stað 30 stórkostlegar stelpur upp í Vindáshlíð í jólaflokk. Jólaandinn tók á móti stelpunum í Hlíðinni og stelpurnar byrjuðu að fá úthlutuð herbergi og bænakonur. Stelpurnar komu sér fyrir í herbergjunum sínum og margar komu með jólaskraut með sér og skreyttu því herbergin sín, meira segja komu einhverjar með jólatré í kassa sem var styllt upp í herberginu (kalla það metnað).

Við tók svo kvöldmatur en það var vel við hæfi að byrja flokkinn á pizzupartý að hætti kokksins. Eftir matinn var komið að kvöldvöku og í þetta sinn fengu stelpurnar piparkökuhús til að skreyta. Það voru áhugaverðar útkomur og verður flottasta húsið krýnt á kvöldvöku kvöldsins. Stelpurnar fengu svo mandarínur og piparkökur í kvöldkaffi og hlustuðu á söguna um miskunsama samverjann í hugleiðingu kvöldsins. Flottur endir á yndislegum degi, en stelpurnar enduðu auðvitað kvöldið með sínum bænakonum inn á herbergjum.

Stelpurnar voru vaktar með jólatónlist kl.9 í morgun. Þær fengu sér næringaríkan morgunmat og svo var morgunstund með forstöðukonu. Þar sungum við saman lög, heyrðum fallega sögu með góðum boðskap og spjölluðum saman um hvað það er virkilega það sem skiptir máli í aðdraganda jólanna; heimilið og fjölskyldan. Eftir morgunstund fóru stelpurnar í hópavinnu, þar sem hópnum var skipt niður á tvær stöðvar og síðar skiptu hóparnir svo allar stelpurnar föndruðu á báðum stöðvum. Á annarri stöðinni var jólakortaföndur og á hinni voru þær að mála kertastjaka. Mjög skemmtilegt að sjá hversu frábærlega listrænar þær eru.

Næst var komið að hádegismat en þar var á boðstólum mexíkósk súpa með öllu tilheyrandi. Ice guys mættu skyndilega í heimsókn og fluttu sitt fræga lag Krumla.

Loks var haldið í útiveru þar sem við fórum í ratleikinn Elf the game. Þar hittu stelpurnar Buddy the elf, sem hafði heyrt að hann átti pabba í alvöru heimum og áttu stelpurnar að fylgja vísbendingum úti um allt svæðið og finna Walter, pabba Buddy. Þær rákust á allskonar fígúrur útum allt svæði, sem hjálpuðu þeim að finna Walter. Ótrúlega skemmtilegur leikur og stelpurnar skemmtu sér konunglega. Eftir útiveru komu stelpurnar inn í kaffitíma og þar beið þeirra dýrindis jógúrtkaka, kanillengjur og heitt kakó. Mögulega kíktu Ice guys aftur í heimsókn þar og heyrt hefur að þeir verði jafnvel fram á kvöld.

Myndir frá þessum fyrsta sólahring koma inn í kvöld á flickr.

            

 

Jólakveðjur,

Marín Hrund

forstöðukona