Sumarið fer af stað með sólskini og fuglasöng í bland við gleði og hlátur ungra Hlíðameyja.
Komið þið sæl og blessuð.
Fyrsti flokkur sumarsins í Vindáshlíð hófst í gær. Það voru rúmlega 80 stelpur, auk starfsmanna sem lögðu af stað í rútunum frá Holtavegi og spennan var í hámarki. Rútuferðin gekk mjög vel og við vorum mættar í Vindáshlíð rétt um klukkan 14.
Við byrjuðum á því að skipta stelpunum niður í herbergi og pössuðum auðvitað vel upp á að vinkonur og frænkur fengju að vera saman í herbergi svo allar væru með einhverjum sem þær þekkja.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í herbergjunum þá var smá rölt um húsið og nánasta umhverfi og kynning á svæðinu og svo beið okkar dýrindis kaffitími með heimabökuðu kryddbrauði og jógúrtköku. Eftir kaffitíma byrjaði svo brennókeppnin sívinsæla og boðið upp á eitthvað skemmtilegt á svæðinu eins og t.d. íþróttakeppni, föndur, og spjall og kósý í setustofunni. Stelpurnar nutu sín bæði inni og úti og við áttum góðan tíma saman.
Kvöldmaturinn var klukkan 18:30 og þá bauð eldhúsið upp á grjónagraut og lifrarpylsu og þessi matur rann vel ofan í hópinn.
Kvöldvakan var næst á dagskrá en í kvöld var boðið upp á ”amazing race” keppni um svæðið og svo var farið í íþróttahúsið í leiki og fjör.
Eftir kvöldvöku var boðið upp á banana og perur áður en við settumst allar saman í setustofuna og lukum deginum saman með því að syngja nokkur róleg lög og hlusta á fallega sögu með góðum boðskap.
Það gekk svo ótrúlega vel að bursta tennur en það var í boði að bursta inni eða úti í læknum okkar. Það var spennandi valkostur og margar stelpur nýttu hann á meðan aðrar burstuðu sig inni.
Í Vindáshlíð eru bænakonur ómissandi hluti af starfinu. Þær kynnast sínum stelpum best, fylgjast með að þær hafi það gott og enda svo daginn með þeim í spjalli og að lokum biðja þær saman með stelpunum. Í gær höfðum við þann háttinn á að bænakonurnar sátu inni hjá stelpunum eftir spjall og bænir, alveg þar til var komin ró. Þetta þótti stelpunum mjög gott og gaman. Það var komin góð ró í húsið um klukkan 23 þó þær væru ekki alveg allar sofnaðar þá. Þær hressustu sem gátu alls ekki sofnað enduðu svo á að hlaupa úr sér síðustu orkuna í miðnæturhlaupi þrjá hringi í kringum húsið til að athuga hvort þær yrðu nógu þreyttar eftir það. Það tók svo ekki langan tíma eftir það fyrir síðasta hópinn að sofna.
Við erum ótrúlega ánægðar með þennan flotta hóp af dásamlegum stelpum sem við höfum fengið til okkar. Þetta gekk svo ótrúlega vel, þær voru svo flottar, duglegar og jákvæðar og tóku vel í það sem var í boði. Við hlökkum mikið til að vera með þennan flokk næstu dagana og munum reyna að setja inn bæði fréttir og myndir á hverjum degi svo þið getið fylgst með hvað það er gaman hjá okkur.
Það munu koma myndir inn á síðuna okkar fljótlega og svo reynum við að setja inn bæði myndir og fréttir á hverjum degi.
Vindáshlíðarkveðjur úr sólinni, Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona.