Sunnudagurinn byrjaði mjög snemma hjá mörgum stelpum, en þær sem fóru fyrstar á stjá voru komnar á fætur um 6:30 í morgun. Um klukkan 8:00 voru flestar stelpurnar vaknaðar en áætluð vakning var hinsvegar ekki fyrr en klukkan 9:00! Þegar foringjarnir fóru af stað að ”vekja” herbergin voru nánast allar stelpurnar komnar á fætur og til í fyrsta heila daginn í Hlíðinni fríðu.
Morgunmatur var mjög hefðbundin, morgunkorn, súrmjólk og hafragrautur og gátu þær valið sér það sem heillaði mest.

Á biblíustundinni sungum við saman nokkur lög og lærðum svo um það að við erum einstakar, hver og ein, að við erum dýrmæt sköpun Guðs og hann elskar okkur allar. Við bjuggum svo til hjarta með fingraförunum okkar og hengdum upp á vegg í salnum. Það minnir okkur á boðskap morgunsins og hversu dýrmætar hver og ein er.
Eftir biblíulesturinn fóru svo allar stelpurnar að gera allskonar skemmtilegt, en það var ýmislegt í boði, svo sem Brennókeppnin sívinsæla, íþróttakeppni, spjall og spil, föndurherbergið var opið og einnig frjálst að finna sér eitthvað skemmtilegt sjálfur eins og að fara út að leika í fallega umhverfinu okkar, nú eða bara leggjast í koju og lesa bók og slappa af – en það voru nú ekki margar sem völdu sér það.

Hádegismaturinn í dag var fiskur í raspi, kartöflubátar og sallat. Það er alltaf vinsæll matur og engin undantekning á því í þessum hóp. Þær borðuðu flestar mjög vel og voru ánægðar með matinn.

Eftir hádegismat var frjáls tími en fljótlega var bjöllunni hringt og foringjarnir voru þá tilbúnir í ævintýragönguferð dagsins. Ferðinni var heitið í réttir sem eru hérna nálægt okkur og þar var farið í allskyns leiki með stelpunum. Réttarferðir þykja mjög skemmtilegar og flestar, ef ekki allar stelpurnar komu glaðar og kátar tilbaka. Við nýttum líka tækifærið og héldum Hlíðarhlaupið sem er hluti af íþróttakeppninni okkar, en það felur í sér hlaup eftir veginum, alveg niður að hliði. Það tók því ekki langan tíma að fara þaðan í réttirnar og svo fengum við nægan tíma í allskyns leiki þar.
Kaffitíminn beið eftir þeim þegar þær komu og allar borðuðu þær vel af gerbollum og möndluköku með bleiku kremi, sem bakarinn okkar hafði undirbúið fyrir okkur.

Eftir kaffi var aftur frjáls tími með alls kyns skemmtilegum viðfangsefnum, auk þess sem fimm herbergjanna voru að undirbúa sín atriði fyrir kvöldvökuna í kvöld. Það var því nóg að gera í húsinu og nóg af afþreyingu í boði fyrir allar stelpurnar.

Kvöldmaturinn kom svo á sínum tíma og stelpurnar borðuðu allar vel af kjötbollum, kartöflumús og sósu.

Kvöldvakan var á sínum stað og stelpurnar skemmtu sér mjög vel. Leikrit, leikir, söngvar og gleði fylltu salinn í góðan klukkutíma. Mikið fjör og mikið gaman.
Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og svo eigum við saman rólega stund í setustofunni okkar þar sem við syngjum saman og heyrum hugleiðingu um Guðs orð. Þetta er ótrúlega kósý stund og gaman að geta endað daginn svona allar saman á kvöldin áður en bænakonurnar koma svo inn í herbergin og enda daginn með sínum stelpum.

Stelpurnar máttu fara út í læk til að bursta tennur sem var mikið sport og svo áttu allir að fara í náttföt og bíða eftir sinni bænakonu. Hópurinn stóð sig ótrúlega vel og flestar, ef ekki bara allar, tilbúnar á réttum tíma og biðu eftir sinni bænakonu.

EN, …við vorum ekki alveg hættar með dagskrá í dag, þó að stelpurnar héldu það.

Það varð því mikið fjör og læti þegar bænakonurnar komu hlaupandi inn gangana með hávaða og látum, syngjandi og dansandi og hávær danstónslist í matsalnum. Þessu áttu þær ekki von á en flestar voru mikið til í þetta óvænta náttfatapartý!
Við sungum og dönsuðum og höfðum rosa fjör í næstum því klukkutíma með öllum stelpunum.
Svo komu furðuverur í heimsókn sem kúkuðu frostpinnum og að lokum fengum við að heyra söguna um hugrökku Júlíu sem er í liði með Jesú og fyrirgaf öllum krökkunum sem höfðu verið að stríða henni, því það hefði Jesú pottþétt gert líka.
Það voru því mjög þreyttar en afskaplega glaðar og kátar stelpur sem fóru að sofa í kvöld, margar þeirra enn með bros á vör og sumar hálf dansandi ennþá í rúminu sínu.
Þær voru ótrúlega duglegar að fara að sofa eftir langan dag og allt þetta fjör og nú vonum við að allar hvíli sig vel í nótt og að hér verði kátar og glaðar stelpur sem taka á móti nýjum degi með bros á vör.

Ég ætla í lokin að hrósa stelpunum ykkar. Þær eru ótrúlega flottar og duglegar og hafa staðið sig með miklum sóma, verið kurteisar, glaðar og margar mjög hjálpsamar líka. Það er ótrúlega lítið um heimþrá, þó hún reyni að stela gleðinni af örfáum af og til, en við erum yfirleitt fljótar að dreifa huganum og hjálpa þeim að líða betur og heilt yfir gengur allt ótrúlega vel. Þetta er bara ótrúlega flottur hópur og ég er mjög glöð að fá að vera með þeim á þessum frábæra stað sem Vindáshllíð er.
Takk fyrir daginn í dag, Hlíðarkveðjur Jóhanna K. Steinsdóttir.