Dagur 3 í Vindáshlíð

Í morgun voru bara nokkrar stelpur vaknaðar fyrir átta en þær stóðu sig ótrúlega vel og það var alveg friður og ró í húsinu þar til um 8:30 þegar bættist í hópinn og meirihlutinn var vaknaður vel fyrir níu. Allar voru þær svo komnar á fætur um níu-leytið og alveg til í ný ævintýri á þessum fallega sólríka degi í Vindáshlíð.

Við fórum í morgunmat og eftir að fánanum hafði verið flaggað þá var biblíulestur í salnum okkar niðri. Við lærðum um Biblíuna, af hverju hún er svona merkileg, hvað er í henni, að hún er eins og bókasafn uppfull af upplýsingum sem við getum ennþá nýtt okkur þó hún hafi verið skrifuð fyrir mjög-mörghundruð árum síðan. Svo lærðum við líka um bænina og hversu gott það er að mega biðja til Guðs og hann svari öllum bænum, þó svarið sé kannski ekki alltaf það sem við viljum helst heyra.

Skemmtileg dagskrá var svo í boði eftir biblíulestur og þar mátti finna æsispennandi brennókeppni, íþróttakeppnir, sturtuferðir herbergjanna, leiki og frjálsan tíma.

Hádegismaturinn var kjúklingaborgarar, franskar og grænmeti og rann það vel ofan í svangar stelpur.

Við ákváðum að nýta góða veðrið vel í dag og drífa okkur í göngu út að fossi sem að er kallaður ”brúðarslæða” hér í Vindáshlíð. Stelpurnar fengu að taka með sér sundföt og handklæði svo þær gætu buslað og leikið sér við fossinn. Þetta var mjög skemmtilegt og þær gleymdu sér í leik og gleði í góða veðrinu sem leikur við okkur hér í Kjósinni. Þær tóku líka með sér hluta af kaffitímanum, amerískar súkkulaðibitasmákökur til að gæða sér á og svo fengu þær ilmandi nýbakað bananabrauð þegar þær komu til baka úr göngunni.

Eftir kaffitímann var aftur frjáls tími og allar stelpurnar fundu sér eitthvað skemmtilegt að gera. Það var margt í boði og engin þurfti að láta sér leiðast og þær voru mjög duglegar að nýta sér sólskinið og góða veðrið.

Kvöldmaturinn var svo girnileg mexicotómatsúpa með snakki, osti og sýrðum rjóma. Þær borðuðu af bestu lyst, enda mjög góð súpa sem hægt er að mæla með!

Kvöldvakan var á sínum stað. Það var mikil gleði, mikið hlegið og auðvitað svoldið sungið líka á milli þess sem herbergin komu með skemmtiatriði. Kvöldvökurnar í Vindáshlíð eru alltaf fjörugar og skemmtilegar og þessi hópur er sko engin undantekning þar.

Í kvöldkaffi voru ávextir og svo fórum við allar saman inn í setustofu og hlustuðum á hugleiðingu sem ein foringjanna sagði okkur.

Við leyfðum þeim sem vildu að fara út í læk til þess að bursta tennur, en það er mjög vinsælt og skemmtilegt hjá stelpunum. Eftir það komu bænakonurnar inn á herbergi og spjölluðu, báðu með þeim og sátu svo hjá þeim á meðan allt var að komast í ró og flestar að sofna eða sofnaðar.

Dagurinn hefur gengið glymrandi vel og við erum mikið þakklátar fyrir góða veðrið sem gerir alla hluti betri. Ég held ég geti lofað því að þær flestar, ef ekki bara allar, voru mjög sáttar við þennan dag og þá erum við, starfsfólkið, líka mjög ánægð. Á morgun, þriðjudag, er svo síðasti heili dagurinn okkar í þessum flokki, veisludagurinn, með öllu tilheyrandi. Mjög spennandi.

Bestu kveðjur úr Vindáshlíð.

Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona.