Veisludagur í 1. flokki

Dagarnir hafa liðið ótrúlega hratt hér í Vindáshlíð og núna er það síðasti heili dagurinn okkar hér í 1. flokki og við byrjuðum hann með stæl. Hér í Vindáshlíð er það nefnilega þannig að þegar stúlka hefur dvalið í 3 nætur samfleytt í dvalarflokki í Vindáshlíð fær hún titilinn Hlíðarmey. Við höfum haft þann háttinn á að fagna því strax í morgunmat, svo ásamt því að bjóða upp á hefðbundin morgunmat var Coco Pops í boði.  Stelpurnar voru mjög til í þetta og stoltar af nýja titlinum sínum.
Við héldum svo hefðbundinni dagskrá með fánahyllingu og biblíulestri
Strax eftir biblíulestur var svo æsispennandi úrslitakeppni í Brennó þar sem tvö stigahæstu herbergin kepptu sín á milli og eins og í öllum keppnisleikjum þá endaði það á að annað sigraði hitt og má því kalla sig brennómeistara 1. flokks.

Hádegismaturinn var á sínum stað, en í dag var boðið upp á Plokkfisk, rúgbrauð og ferskt salat. Flestar borðuðu mjög vel og fannst þetta góður matur. Hinar sem voru ekki plokkfiskmegin í lífinu voru svo heppnar að það voru til afgangar af kjötbollunum og kartöflumúsinni, svo engin fór svangur úr matartímanum.

Eftir hádegismat gerðist nokkuð óviðbúið og óvænt, þegar gasmengun frá eldstöðvunum á Reykjanesi náði hingað í Kjósina. Það hentaði því ágætlega að í ”útiveru” var skipulagt að undirbúa kirkjustundina sem er í upphafi veislukvölds. Stelpurnar skiptu sér í nokkra hópa sem að undirbjuggu tónlistaratriði (kórsöng), skreytingar, leiksýningu, bænir, bjölluhringingar og annað. Þær nýttu tímann vel fram að kaffi innivið á ýmsum stöðvum til að undirbúa og þá var lítil þörf á að vera útivið.

Gasmengunin var þó ekkert að flýta sér yfir Kjósina, svo við héldum öllum inni í húsi megnið af tímanum eftir hádegið og lokuðum flestum gluggum og hurðum til að verjast mengun. Einhverjar stelpur fundu mengunar – einkenni en engum varð meint af. Þetta var frekar óheppilegt þar sem veðrið var annars mjög stillt og gott og útivera hefði verið mjög heppileg. En, svona verður stundum að bregðast við óvæntum atburðum. Það eru reyndar engir loftgæðamælar nálægt okkur (sem ég veit um) svo við þurfum að nota sjónina, lyktarskynið og almenna skynsemi í þessu máli.

Eftir kaffitíma byrjuðum við að undirbúa veislukvöldið okkar. Þá klæða allar sig í betri fötin/sparifötin og bjóða upp á ”vinagang” en það snýst um að leyfa stelpunum að bjóða upp á hárgreiðslu, naglalakk, nudd eða annað sniðugt til að undirbúa okkur fyrir veislukvöldið og gera okkur fínar. Það hentaði okkur mjög vel því þá er eitthvað spennandi að gerast innandyra og stelpurnar uppteknar í gleðinni og spenning fyrir kvöldinu – og gasmenguninni var bara ekki boðið með í það partý.

Veislukvöldið hófst á samveru í kirkjunni okkar. Þar fengu stelpurnar að láta ljós sitt skína á einn eða annan hátt og við áttum mjög kósý stund saman. Eftir samveruna í kirkjunni tók við mjög hefðbundin dagskrá þar sem við tökum niður fánan og ”vefuðum mjúka dýra dúka” alla leið niður að skálanum okkar. Eftir það tókum við myndir af stelpunum í hverju herbergi með bænakonunni/konunum sínum og skelltum okkur inn í dýrindis pizzuveislu.

Verðlaun og viðurkenningar fyrir alls kyns keppnir voru veittar í veislukvöldmatnum á milli þess sem þær borðuðu pizzu og drukku djús með. Brennómeistarar, íþróttavinningar, innanhússkeppnin og íþróttadrottningin. Það var mikið fjör og mikið gaman og allar stelpurnar voru mjög duglegar í pizzunum

Kvöldvakan var svo toppurinn á dásamlegum degi. Foringjarnir fóru á kostum og unnu hvern leiksigurinn á fætur öðrum og uppskáru mikil fagnaðarlæti.

Kvöldkaffið var á sínum stað strax eftir kvöldvöku og í dag var skemmtileg viðbót við ávextina þegar allar stelpurnar fengu bæði kærleikskúlur sem að einn hópurinn í dag hafði búið til (kókoskúlur) og veisludags – íspinna. Við enduðum svo dagskránna þennan fallega dag á hugleiðingu um Guðs orð og hvernig Guð er alltaf með okkur, jafnvel þegar við höldum að hann sé bara alls ekki nálægt.

Kvöldið leið allt of hratt og við skemmtum okkur eiginleg allt of vel. Allavega fóru stelpurnar að sofa dálítið mikið seinna en áætlað var, en þegar gleðin tekur völdin þá stundum gleymist tíminn aðeins. …og þegar maður fær svo ís í kvöldkaffinu og leyfi til að fara út í læk að tannbursta sig þá voru þær fljótar að fyrirgefa hversu seint var orðið, enda ”ekkert þreyttar” að eigin sögn! Það er þó örlítill möguleiki á að sumar stelpurnar verði mjög þreyttar annað kvöld þegar þær eru komnar heim en ég lofa að þær verða með fullt af frábærum minningum í huganum og sofna vonandi með bros á vör!

 

Í dag, miðvikudag, er svo heimkomudagurinn, en að sögn margra er það leiðinlegasti dagurinn því þá þurfum við að kveðja Vindáshlíð og allar nýju vinkonurnar, foringjana og lífið í sumarbúðunum.
Við ætlum þó að nýta daginn vel, fara í brennó, fara aftur í kirkjuna okkar og m.a. heyra söguna um það af hverju þessi fallega kirkja stendur  hér á þessum stað, fá okkur pylsur í hádegismatinn og hafa svo frábæra kveðjustund saman áður en við höldum af stað í bæinn.
Heimkoma á Holtaveg 28 er áætluðu um 14:40 leytið.

Þessi fyrsti flokkur er búin að vera mjög skemmtilegur og frábært að fá að hafa allar þessar dásamlegu stelpur hérna með okkur í þessa daga. Stelpurnar ykkar hafa staðið sig mikið vel og margar unnið stóra og smáa sigra og við erum ótrúlega stoltar af þeim öllum. Þær eru glaðar, hressar, jákvæðar og ótrúlega tilbúnar að taka þátt og vera með í því sem við bjóðum upp á.
Ég vona að þær hafi eignast frábærar minningar og komi heim með gleði í hjarta og bros á vör.

Við erum búin að taka fullt af myndum sem munu birtast á myndasíðunni okkar. Við höfum bara verið örlítið uppteknar við að sinna stelpunum og hafa gaman með þeim, en vonandi koma fleiri myndir inn í dag. Endilega fylgist með og skoðið myndirnar með stelpunum ykkar þegar þær eru komnar heim og fáið að heyra af öllu því skemmtilega sem við höfum brallað saman síðustu dagana.

Fyrsti flokkur sumarsins kveður úr Vindáshlíð
Jóhanna K. Steinsdóttir, forstöðukona.