Í gær komu 82 hressar og kátar stelpur í Vindáshlíð. Það voru margar búnar að koma áður og þekktu því umhverfið og staðinn vel.

Eftir að hafa hlustað á reglur og komið sér fyrir á herbergjunum fengu þær ljúffenga jógúrtköku og ávexti í kaffinu. Við vorum svo heppnar að hafa afmælisbarn í hópnum og sungum við því auðvitað saman Vindáshlíðar-afmælissönginn sem er mjög hress og skemmtilegur.

Brennókeppnin fór af stað beint eftir kaffi og keppa herbergin á móti hvort öðru í þessari æsispennandi keppni. Sigurherbergið fær svo að keppa á móti foringjunum seinasta daginn – sagan segir að foringjar hafi aldrei tapað… en þessar stelpur gætu nú náð sigri miðað við hvað þær eru flottar og öflugar í brennóinu. Það voru einnig íþróttakeppnir í boði og föndur. Ásta íþróttaforingi var með púslkeppni þar sem stelpurnar áttu að púsla lítið púsluspil eins hratt og þær gátu. Kristín Hanna sá um föndrið í dag og bauð stelpunum upp á að föndra fallegar myndir til þess að skreyta svefnherbergjahurðarnar sínar.

Í kvöldmat var grjónagrautur og lifrarpylsa sem rann ljúflega niður. Kvöldvakan var að þessu sinni úti og fóru stelpurnar í ratleik um svæðið. Þegar kom að kvöldkaffi voru þær búnar að leika sér úti um allan skóg og safna stigum. Lilja Rós las fallega sögu í hugleiðingu og talaði um hvað við erum allar frábærar og fullkomnar eins og við erum.

Að hugleiðingu lokinni fóru stelpurnar að gera sig klárar í svefninn. Þær sem vildu máttu bursta tennur í læknum og var það afar vinsælt. Bænakonur fóru svo inn á sín herbergi og áttu góða stund með stelpunum fyrir svefninn. Þær voru þreyttar stúlkur sem lögðust á koddann og sváfu vel í nótt.

Þetta er alveg einstaklega flottur hópur af stelpur sem við erum með hérna í Hlíðinni fríðu. Fjörugar, glaðar og jákvæðar.

Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga á milli 11:30-12:00 í síma 566-7044. Við setjum svo fréttir daglega hér inn á vindashlid.is og myndir sem hægt er að finna hér. Að gefnu tilefni minni ég einnig á Instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid).

Hlýjar kveðjur úr Vindáshlíð,

Helga Sóley forstöðukona