Í gær vöknuðu stelpurnar hressar og kátar eftir fyrstu nóttina í Vindáshlíð. Foringjarnir vöktu stelpurnar með ljúfum tónum kl. 9:00. Í morgunmat var í boði að fá sér hafragraut eða morgunkorn með mjólk eða súrmjólk. Eftir morgunmat er hefð fyrir því hér í Vindáshlíð að halda út að fánastöng en þar er fánahylling á hverjum morgni. Eftir fánahyllingu var svo haldið niður í kvöldvökusal á morgunstund með forstöðukonu. Stelpurnar biðu spenntar eftir því að vita hvaða herbergi fengu að keppa í brennó fyrir hádegi, enda hörkukeppni hér í 3. flokk! Ásamt brennóinu var auðvitað í boði að taka þátt í íþróttakeppnum, föndur, gera vinsælu Vindáshlíðar vinaböndin eða annan frjálsan leik.

Í hádegismat var Elísa ráðskona, og hennar flotta teymi, búnar að matreiða kjötbollur með kartöflumús, sósu, salati og rabarbarasultu. Svo fóru stelpurnar allar í hlý föt þar sem förinni var heitið í stutta göngu að Brúðarslæðu, en það er foss hér í nágrenni Vindáshlíðar. Þar fengu þær að vaða, busla og skemmta sér í stígvélunum. Eftir útiveru var komið að kaffitíma en þar var á boðstólum gulrótarkaka sem Guðbjörg bakaði ásamt karamellulengjunum hennar Ísabellu. Eftir kaffi var svo enn og aftur frjáls tími þar sem keppt var í brennó og íþróttum eða haft það notalegt fyrir þær sem vildu.

Í kvöldmat voru kjúklingaborgarar með frönskum, og stelpurnar borðuðu á sig gat þær voru svo sáttar með matinn! Í kvöldvöku fengu stelpurnar sjálfar að halda uppi stuðinu. Salka hitti þau herbergi sem voru með atriði á kvöldvökunni fyrr um daginn og hjálpaði þeim að undirbúa sig. Þær voru með ótrúlega flott atriði og eiga stórt hrós skilið.

Eftir kvöldkaffi var Kristín Hanna með hugleiðingu. Þar las hún stutta sögu fyrir stelpurnar og talaði um hvað er mikilvægt að trúa á okkur sjálfar og elta draumana okkar. Svo sungum við nokkur falleg og róleg lög og fórum með kvöldbænir saman.

Þegar að stelpurnar voru komnar í náttföt og voru á leið upp í rúm komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið og var mikið hlegið og brosað. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar. Þær fengu svo íspinna eftir frábært náttfatapartý.

Þær fóru þreyttar og alsælar á koddann eftir viðburðaríkan dag í Vindáshlíð.

Ég minni aftur á myndirnar sem hægt er að finna hér.

Bestu kveðjur úr Hlíðinni,

Helga Sóley forstöðukona