Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar og heldur betur til í daginn. Þær byrjuðu að sjálfsögðu á því að fá sér morgunmat þar sem var að vana boðið upp á morgunkorn og súrmjólk eða mjólk með en svo var hafragrautur líka í boði fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat var fánahylling og morgunstund með forstöðukonu á sínum stað. Þar töluðum við um sjálfsmyndina okkar, hvernig við ræktum hana og hvað við erum allar fullkomin sköpun Guðs. Að sjálfsögðu sungum við líka helling af söngvum saman því að það er svo gott að byrja daginn á því að syngja. Eftir þessa dásamlegu stund saman þá var  komið að frjálsum tíma með brennói, íþróttum og fleira.

Í hádegismat buðu Elísa og stöllur upp á fisk í raspi með kartöflubátum og grænmeti. Stelpurnar héldu svo í göngu í réttir en þar fóru þær í alls konar leiki. Við nýttum líka tækifærið og vorum með Hlíðarhlaup á leiðinni í réttir. Það er ein af íþróttakeppnunum hjá okkur og hlaupa þær þá frá húsinu að hliðinu við veginn.

Að lokinni útiveru var komið að kaffitíma en að þessu sinni var boðið upp á skúffuköku með bleiku kremi og kryddbrauð sem að sjálfsögðu sló í gegn. Síðan var aftur haldið í frjálsan tíma með brennó, íþróttum og öllu tilheyrandi. Í kvöldmatinn var boðið upp á þrjár tegundir af skyri; jarðarberja, vanillu og kókos, og nýbakað brauð sem var enn volgt úr ofninum. Hópurinn hélt svo á kvöldvöku kvöldsins. Nú fengu stelpurnar aftur að stíga á stokk og seinni helmingurinn af hópnum fékk að sýna atriði á kvöldvökunni.

Eftir kvöldkaffi var Erna María með hugleiðingu fyrir stelpurnar þar sem hún las söguna “Bara að næsta staur”. Svo fóru þreyttar stelpur að gera sig til í háttinn, þær sem vildu fengu að bursta tennur í læknum. Bænakonurnar enduðu daginn hjá sínu herbergi og komu þeim í ró.

Í dag er veisludagur hjá okkur og því nóg um að vera! Fáið að heyra betur frá deginum í dag á morgun 🙂

Hlýjar kveðjur,

Helga Sóley forstöðukona