Í gær vöknuðu hressar og kátar stelpur eftir frábært náttfatapartý. Það var í boði að sofa aðeins lengur fyrir þær sem vildu þar sem við fórum aðeins seinna að sofa eftir partýið, enda vel þreyttar bæði eftir dásamlegan dag og frábært partý. Að þessu sinni voru þær vaktar með lögum úr Latabæ og allir foringjarnir voru einhverjir karakterar úr Latabæ, hér var á stjá Íþróttaálfurinn, Glanni glæpur, Solla Stirða og allir hinir.

Þegar að stelpurnar komu í morgunmat var þeim fagnað vel því reglan er sú hér í Vindáshlíð að ef að maður sefur þrjár nætur er maður formlega orðin Hlíðarmey og voru velkomnar í hópinn með því að bjóða þeim upp á coco pops. En ásamt því var að sjálfsögðu í boði að fá sér annað morgunkorn og mjólk eða súrmjólk með.

Eftir morgunmat var fánahylling á sínum stað og svo var komið að morgunstundinni góðu. Í morgunstundinni ræddum við saman um það að við erum allar með okkar eigin tilfinningafötu og stundum er hún full og þá líður okkur ekki endilega mjög vel. Hún á það líka til að flæða upp úr og þess vegna er svo gott að vera góð hvor við aðra en eins að vera góð við okkur sjálfar og hlúa vel að okkur öllum. Að sjálfsögðu sungum við líka helling af söngvum saman því að það er svo gott að byrja daginn á því að syngja. Eftir þessa dásamlegu stund saman að þá var  komið enn og aftur að frjálsum tíma með brennói, íþróttum og fleira.

Í hádegismat var boðið upp á Lasagna og hvítlauksbrauð. Þegar að útiveru kom fóru stelpurnar í hin vinsæla og skemmtilega leik Flóttinn úr Vindáshlíð. Markmið leiksins var að vera ekki fangaður í fangelsi af foringjunum og reyna að finna griðastað með hjálp vísbendinga út um svæðið til þess að „flýja“ úr Vindáshlíð. Við enduðum leikinn á góðu vatnsstríði þar sem að sólin skein svo fallega á okkur.

Að lokinni útiveru var komið að kaffitíma en að þessu sinni var boðið upp á hvíta skúffuköku og bananabrauð. Síðan var enn og aftur komið að frjálsum tíma fram að kvöldmat þar sem að stelpurnar kepptu enn og aftur í brennó, tóku þátt í íþróttakeppnum, nutu þess að vera úti í sólinni eða voru að undirbúa kvöldvöku kvöldsins.

Í kvöldvöku var komið að hæfileikakeppninni okkar góðu sem er kölluð Vindó Got Talent þar sem að stelpurnar voru búnar að undirbúa allskonar atriði sem sýnd voru á sviðinu okkar. Það var mikið stuð á kvöldvökunni og mikið hlegið. Loks var komið að kvöldkaffi og hugleiðingu en að þessu sinni ræddum við saman um fyrirgefninguna sem að er svo mikilvæg, en við verðum að kunna að bæði að segja fyrirgefðu og sjá að okkur og taka við fyrirgefningarbeiðninni því þá líður okkur svo miklu betur.

Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínum stelpum en það er með vinsælustu tímum stelpnanna enda eru foringjarnir auðvitað æði. Bænakonurnar fengu að vera í góðan tíma inni hjá stelpunum og voru þær mjög þakklátar og glaðar með það. Stelpurnar sofnuðu svo mjög fljótt eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag.

Minni enn og aftur á myndirnar sem eru hér: Myndir

Hlýjar kveðjur,

Elísa Sif forstöðukona