Það voru 83 ofur spenntar snúllur sem héldu af stað í Vindáshlíð í gær. Lang flestar eru að koma í fyrsta skiptið og eru því mjög peppaðar og til í fjör. Við byrjuðum á að fara yfir helstu reglur og koma öllum fyrir í herbergjum áður en var haldið í kaffi. Þar fengu stelpurnar glænýja pítsasnúða og sjónvarpsköku. Það var frekar mikið rok og rigning hjá okkur í gær svo við héldum okkur að mestu inni í brennó, föndri, bros- og plankakeppni, vinabandagerð og spjalli. Í kvöldmat var svo grjónagrautur og lifrapylsa sem vakti mikla lukku. Kvöldvakan var haldin í íþróttahúsinu þar sem var farið í leiki og sprell. Eftir að hafa hlaupið á milli húsa í rokinu var gott að fá heitt kakó og ávexti í kvöldkaffi. Í hugleiðingu ræddum við um hvað við erum allar einstakar og séum nákvæmlega eins og við eigum að vera. Bænakonur fóru inn á herbergi með stelpunum og vorum margar orðnar frekar lúnar eftir daginn en aðrar voru með smá heimþrá og kvíða yfir fyrstu nóttinni, en við erum öllu vanar og sérfræðingar í knúsum og gekk því allt vel, þó að sumar sofnuðu mun seinna en aðrar.

Það átti að vekja klukkan 9 í morgun en það voru vel flestar vaknaðar upp úr sjö og komið fjör í húsið. Þær örfráu sem enn sváfu kl 9 voru vaktar með stuð tónlist. Veðrið á að vera betra í dag svo við erum spenntar að sýna þeim um svæðið, annað hvort með ratleik eða göngu að Brúðarslæðu. Á biblíulestri ræddum við um tilfinningar og kvíða, hvað það væri gott að varpa áhyggjum sínum yfir á Guð og biðja hann um að vera með okkur í því sem okkur þykir erfitt. Ræddum um þakklætið og hvað við getum verið þakklátar fyrir. Í hádegismat verða kjötbollur, brún sósa og kartöflumús. Svo ætlum við bara að halda áfram að hafa gaman saman 😊

Kærleikskveðjur, Hanna Lára forstöðukona