Sæl öll!
Í dag komu 84 hressar stelpur í Vindáshlíð. Rútuferðin gekk vel og var góð stemning á leiðinni. Stelpurnar byrjuðu á að koma sér fyrir í herbergjum, fengu svo nýbakaða jógúrtköku og kryddbrauð í kaffinu og hófst svo hefðbundin dagskrá. Klassíska brennókeppnin hófst í dag, stelpurnar kepptu í kraftakeppni og nutu þess að leika sér í sveitinni og kynnast nýjum vinkonum.
Í kvöldmat fengu þær svo lasagne, salat og hvítlauksbrauð og má sannarlega segja að það hafi verið vinsælt. Eftir kvöldmat fóru þær í Amazing Race ratleik um svæðið og gekk það mjög vel, það mátti allavega heyra hlátrasköll um allt svæðið. Kvöldkaffið var svo á sínum stað eftir ratleikinn og fóru þær svo beint á hugleiðingu þar sem við sungum saman og hlustuðum á sögu. Nú er allt með kyrrum kjörum og fara stelpurnar ykkar og okkar sáttar í rúmið.
Bestu kveðjur frá forstöðukonu,
Kristjana!