Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar og heldur betur til í daginn. Þær byrjuðu að sjálfsögðu á því að fá sér morgunmat þar sem að var boðið upp á morgunkorn og súrmjólk eða mjólk en svo var hafragrautur líka í boði fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat var fánahylling og morgunstund með forstöðukonu á sínum stað. Í morgunstundinni ræddum við saman um mikilvægi þess að vera góð hvor við aðra og hvað orðin okkar geta haft mikil áhrif á fólk. Orðin okkar geta híft fólk upp en þau geta líka rifið fólk niður og því er svo mikilvægt að reyna að grípa sig áður en maður segir eitthvað sem maður sér eftir og ef maður segir eitthvað sem maður sér eftir að þá er alltaf hægt að biðjast afsökunar. Að sjálfsögðu sungum við líka helling af söngvum saman því að það er svo gott að byrja daginn á því að syngja. Eftir þessa dásamlegu stund saman að þá var komið enn og aftur að frjálsum tíma með brennói, íþróttum og fleira.
Í hádegismat var boðið upp á fisk í raspi með kartöflubátum áður en haldið var í útiveru dagsins í dag. Það ringdi smá á okkur en við létum það ekki stoppa okkur. Í útiveru fóru stelpurnar í hin vinsæla og skemmtilega leik Flóttinn úr Vindáshlíð. Flóttinn gengur út á það að foringjarnir eru allir orðnir veikir af foringjabólunni og því er best að stelpurnar flýi undan þeim, en markmið leiksins var að vera ekki fangaður í fangelsi og finna griðastað með hjálp vísbendinga út um svæðið.
Að lokinni útiveru var komið að kaffitíma en að þessu sinni var boðið upp á sjónvarpsköku og bananabrauð sem að sjálfsögðu sló í gegn. Síðan var enn og aftur komið að frjálsum tíma fram að kvöldmat þar sem að stelpurnar kepptu enn og aftur í brennó, tóku þátt í íþróttakeppnum eða voru að undirbúa kvöldvöku kvöldsins.
Í kvöldvöku var komið að hæfileikakeppninni okkar góðu sem er kölluð Vindó Got Talent þar sem að stelpurnar voru búnar að undirbúa allskonar atriði sem sýnd voru á sviðinu okkar. Það var mikið stuð á kvöldvökunni og mikið hlegið. Loks var komið að kvöldkaffi og hugleiðingu en að þessu sinni ræddum við saman um fyrirgefninguna sem að er svo mikilvæg, en við verðum að kunna að bæði að segja fyrirgefðu og sjá að okkur og taka við fyrirgefningarbeiðninni því þá líður okkur svo miklu betur.
Þegar að stelpurnar voru komnar í náttföt og voru á leið upp í rúm komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið og var mikið hlegið og brosað. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar, það var þáttastjórnandi sem að stjórnaði þætti af Djúpu Lauginni þar sem keppendurnir Geirþrúður, Karlotta Jólína og Hámundur Hái kepptust um að heilla hann Grinch sem var að leita sér að nýjum fylgdarmanni þar sem að hundurinn Max var ekki lengur með honum. Þetta vakti mikla lukku og hlátur og stóð Hámundur Hái uppi sem sigurvegari. Þetta vakti mikla lukku og hlátur. Stelpurnar fengu svo allar íspinna í lok partýsins.
Það fóru því vel þreyttar er hrikalega glaðar stelpur á koddann hér í Hlíðinni í kvöld.
Ég minni enn og aftur á það að hægt er að nálgast myndir úr flokknum hér: Myndir
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona