Í gær vöknuðu hressar og kátar stelpur eftir frábært náttfatapartý. Það var í boði að sofa aðeins lengur fyrir þær sem vildu þar sem við fórum aðeins seinna að sofa eftir partýið, enda vel þreyttar bæði eftir dásamlegan dag og frábært partý. Að þessu sinni voru þær vaktar með vögguvísum og sáu að foringjarnir voru klæddir í allt öfugt og sögðu góða nótt í stað þess að segja góðan daginn. Þeim var strax ljóst að hér í Hlíðinni væri öfugur dagur í dag þar sem allt var á röngunni.

Þær byrjuðu því daginn á því að fara í „kvöldkaffi“ sem var í raun morgunmatur en dulbúið sem kvöldkaffi en þar var búið að var að baka brauðbollur með allskonar grænmeti og fleira áleggi. Eins var í boði að fá sér ávexti eins og alltaf í boði í kvöldkaffi. Stelpurnar borðuðu ekkert smá vel. Næst fóru þær á hugleiðingu sem er vanalega á kvöldin en að þessu sinni var hún um morguninn. Þar sungum við róleg og falleg lög ásamt því að heyra fallega sögu um að vera góð hvort við annað.

Næst var haldið í smá frjálsan tíma þar sem boðið var upp á frjálst brennó, íþróttakeppnir, föndur, vinaarmbönd eða annan frjálsan leik. Næst var komið að „kvöldmat“ sem var í raun hádegismatur dulbúin sem kvöldmatur en þar var í boði Plokkfiskur og rúgbrauð áður en haldið var í „kvöldvöku“. Oftast væri útivera á þessum tíma dags en þar sem það var öfugur dagur var kvöldvaka í staðin. Að þessu sinni var farið í Ævintýrahús um Vindáshlíð. Í ævintýrahúsi er hvert herbergi leitt í gegnum ævintýraheim með bundið fyrir augun. Á stöðvum fengu þær svo að hitta meðal annars Nornina, Kobba Kló og loks Aríel Prinsessu. Ævintýrahúsið vakti mikla lukku.

Í kaffitíma dagsins var boðið upp á skinkuhorn og súkkulaðiköku sem auðvitað sló í gegn. Síðan var aftur haldið í frjálsan tíma með brennó, íþróttum og öllu tilheyrandi. í „hádegismat“, sem var í raun kvöldmatur dulbúin sem hádegismatur, var boðið upp á pítur. Loks var haldið í útiveru í stað þess að fara í kvöldvöku sem hefði átt að vera á þessum tíma dags. En þar sem að rigndi hressilega á okkur var haldið út í íþróttahús þar sem farið var í leikinn Vindáshlíð Top Model, í þeim leik fær hvert og eitt herbergi svartan ruslapoka sem að þær hanna svo sem einhverskonar flík á eina stelpur í herberginu sem tekur að sér að vera módelið. Í lokin er svo tískusýning þar sem að stelpurnar sýna hönnunina sína.

Loks var haldið í „morgunmat“, sem var í raun kvöldkaffi dulbúið sem morgunmatur, þar sem boðið var upp á amerískar pönnukökur og coco pops morgunkorn en reglan er sú hér í Vindáshlíð að ef að maður sefur þrjár nætur er maður formlega orðin Hlíðarmey og voru velkomnar í hópinn með því að bjóða þeim upp á coco pops. Vanalega er þetta gert á morgnanna en þar sem að það var öfugur dagur var þetta að sjálfsögðu gert um kvöldið í staðin.

Næst var haldið á morgunstund með forstöðukonu. Að þessu sinni ræddum við saman um sjálfsmyndina okkar allra. Við eigum það allar sameiginlegt að brjóta okkur stundum niður en við fórum yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar að okkur líður ekki nógu vel með okkur sjálfar. Við minntum okkur líka á að Guð sér okkur sem fullkomna sköpun sína og hvað það sé frábært að við séum allar ólíkar með ólíka hæfileika. Eftir þessa dásamlegu stund saman fóru allar stelpur út að fána en þar var fánahylling á sínum stað þar sem fáninn var sunginn niður í stað þess að vera sunginn upp eins og vanalega.

Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínum stelpum en það er með vinsælustu tímum stelpnanna enda eru foringjarnir auðvitað æði. Bænakonurnar fengu að vera í góðan tíma inni hjá stelpunum og voru þær mjög þakklátar og glaðar með það. Stelpurnar sofnuðu svo mjög fljótt eftir viðburðaríkan, kannski smá ruglandi en skemmtilegan dag.

Minni enn og aftur á myndirnar sem eru hér: Myndir

Hlýjar kveðjur,

Elísa Sif forstöðukona